Sigmar Vilhjálmsson veitingamaður og fyrrum sjónvarpsstjarna veltir steinum á Facebook síðu sinni í dag. Hann vill breyta umræðunni um Covid-19 faraldurinn hér á landi og að yfirvöld og landsmenn allir horfi frekar til þess hve alvarleg veikindin eru í stað þess hve margir eru smitaðir.
„Hvenær ætlum við að ræða alvarleika þeirra sem smitast? Skiptir fjöldin einhverju máli ef að lang stærstur hluti þeirra smituðu er ekki með alvarleg einkenni? spyr Sigmar. Eins og frægt er greindist hann með Covid fyrir stuttu síðan og er því heima hjá sér í eingangrun.
Hann hefur fundið fyrir afar vægum einkennum og sparar ekki stóru orðin: „Hef verið með smá kverkaskít, bragð og lyktarleysi. Ef að meirihluti þeirra sem eru heima núna með Covid eru með svipuð einkenni, þá eru þessar aðgerðir algjörlega galnar fyrir samfélagið. Sagt og skrifað,“ segir Sigmar.
Hann heldur áfram: „Rakningarteymið er með yfirlit og flokkun á þeim sem eru heima með Covid. Ég er flokkaður grænn, með lítil sem engin einkenni. Hvað er stór hluti af þeim sem eru heima með Covid í sama flokk?“
Sigmar segir vinnubrögð fjölmiðla óásættanleg og vill breytingar: „Það er með öllu óviðundandi að við séum að fá fréttir á hverjum degi með einhverjum fjöldatölum sem skipta nákvæmlega engu máli nú frekar en í almennum kvefpestum fyrir 2 árum síðan.“
Færsla Sigmars hlaut góðar undirtektir og lýstu margir Facebook vinir hans yfir ánægju sinni. Þar segir Jónas nokkur: „Alveg galið að halda nánast fullfrísku fólki heima og annað eins í sóttkví - förum bara Donald Trump leiðina sem er sú að sleppa sýnatöku þá finnst veiran ekki just saying.“
Karen nokkur kveðst upplifa slíkt hið sama og Sigmar og vill breiðari nálgun á hlutina: „Sammála! Er heima með covid og einu einkenni mín eru skortur á bragð og lyktarskyni. Svo þurfum við líka að hugsa um hvað þessi útskúfun þeirra sem greinast með covid hefur slæm áhrif á geðheilsuna og það að vera innilokaður heima hjá sér og mega ekki einu sinni fara í göngutúr.“
Þá er Villi Ara kominn með nóg af hræðsluáróðri í fjölmiðlum: „Það þarf að fara hugsa þetta upp á nýtt.“
Þorbjörg nokkur tekur undir með Sigmari og fleirum og hefur áhyggjur af börnunum: „Sammála, þetta er komið út í einhverja vitleysu..ég fann ekki fyrir neinum einkennum en missti samt lykt og bragðskynið! Ég hef svo mestar áhyggjur af blessuðu börnunum þau eru komin með heilsu og pinna kvíða!“
Björg nokkur segir hins vegar að henni finnist eins og þær upplýsingar sem Sigmar biður um séu fyrir löngu komnar fram í dagsljósið. Aðeins tvö prósent þeirra sem sýkjast þurfi á sjúkrahús og þær aðgerðir sem eru í gangi miðist við það sem heilbrigðiskerfið ráði við.
Sigmar svarar því og vill setja þrýsting á Fjármála- og heilbrigðisráðuneytið: „hvernig væri þá að setja pressu á fjármálaráðuneyti og heilbrigðismálaráðuneyti í að leysa þau mál? Semja við sjálfstæða læknaþjónustur, borga heilbrigðisfólki eðlilegt vinnuálag, laða til sín starfsmenn með bættum kjörum, breyta tómum hótelrýmum í dvalarrými og sjúkrabíla á staðnum ef illa fer. Leysa þessi mál peningalega og hugmyndalega án þess að leggja samfélagið í rúst. Fjármunir eru að brenna á hverjum degi í miklu hærri upphæðum en þeim sem hægt er að verja í þessar lausnir. Þessi meðvirkni aðgerðaleysis er orðinn ærandi,“ segir Sigmar.