Óhætt er að segja að sú ákvörðun Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingkonu Framsóknarflokksins, að fara í ræktina með systur sinni í gær hafi vakið athygli. Að minnsta kosti eru fjörugar umræður um málið á Twitter og ljóst að skoðanir eru skiptar.
Eins og kunnugt er eru líkamsræktarstöðvar lokaðar vegna COVID-19-faraldursins. Þær hafa verið lokaðar frá 25. mars síðastliðinum og verða það til 15. apríl næstkomandi hið minnsta.
Yngri systir hennar á stöðina
Forsaga málsins er sú að Silja Dögg birti mynd af sér á Facebook í gær þar sem hún greindi frá því að hún væri að fara á sína fyrstu æfingu í ólympískum lyftingum. „Einkaþjálfun hjá lil‘sys,“ sagði Silja Dögg en svo vill til að yngri systir hennar á umrædda líkamsræktarstöð, Orkustöðina.
Ásta Guðrún Helgadóttir, fyrrverandi þingkona Pírata, var í hópi þeirra sem gengu hvað harðast fram í gagnrýni gegn Silju.
„Þingmaður ríkisstjórnarflokks notar tengsl sín til þess að gera það sem almenningi er bannað. Montar sig á FB í þokkabót. Kunnuglegt stef og afleiðingarnar verða engar frekar en fyrri daginn. Er þessi ríkisstjórn alveg klofin í þrennt?“
Ásta sagði að hana langaði líka í ræktina og sund en benti á að það væri bannað samkvæmt tilmælum sóttvarnalæknis. „Nema auðvitað ef við segjumst allar vera að æfa fyrir Ólympískar kraftlyftingar undir ÍSÍ eða Ólympíusambandi í, þá getum við kannski komist í ræktina eins og sumir þingmenn.“
Ekkert að þessu, segja sumir
Ekki eru allir á því að Silja hafi gert nokkuð rangt og bendir til dæmis einn á í athugasemd undir færslu Ástu að ef viðkomandi á líkamsræktarstöð, hljóti hann að geta æft þar eins og hann vill og tekið fjölskyldumeðlim með sér. Skiptir þá engu í hvaða starfi viðkomandi er. Þessu svarar Ásta svona:
„Ef ég á bar, þá má ég taka með mér einn og einn fjölskyldumeðlim og haldið smá partý, ekki satt? Eitt á yfir alla ganga - það er sorglegt að þið séuð að verja svona lagað. Sýnir ykkar innri mann.“
Einn bendir á að þetta sé orðið þreytt þema hjá þingmönnum ríkisstjórnarinnar sem virðast eiga það til að túlka eigin reglur frjálslega. „Annaðhvort erum við “öll í þessu saman” eða ekki.“
Bara tvær saman
Silja Dögg tjáði sig um málið á vef Vísis í gærkvöldi þar sem hún sagðist ekki hafa komist í ræktina vegna tengsla sinna sem þingmaður. Systir hennar eigi stöðina og henni hafi verið boðið að koma með. „Þetta er ekki opin stöð. Hún er lokuð og það er enginn að fara þarna nema ég og systir mín. Hún er ekki að opna þarna fyrir vini og vandamenn,“ sagði hún.
Ásta brást við þessar frétt með annarri færslu á Twitter þar sem hún sagði: „Líkamsræktarstöðvar eru lokaðar. Líka fyrir skyldfólk eigenda. Við gerum meiri kröfur á þingmenn, hvað þá þingmenn ríkisstjórnarinnar, um að fara eftir settum reglum. Þessar lélegu útskýringar er bara eins og köld gusa á okkur hin - "ég er svo vel tengd, ekki mér að kenna!"“
Þurfa að sýna fordæmi
Silja svaraði Ástu í færslu á Twitter þar sem hún útskýrði að systir hennar ætti stöðina og þær séu saman í fjölskyldubúbblu. Aðrir hafi ekki aðgang að stöðinni en hún skilji vel að fólk sé farið að þrá að fara í sund og rækt. Ásta var ekki á því að kaupa þessar skýringar:
„Já, veistu mér finnst þetta bara mjög ósmekklegt af þér. Það er ekkert sem leyfir fólki sem á ættingja sem eiga líkamsræktarstöðvar að stunda þær, enda eiga þær að vera lokaðar öllum. Líka systkinum og sem þingmaður þá áttu að sýna fordæmi í verki og hlýða því. “
Djöfull er þetta mikil vanvirðing við alla þá sem hafa verið að þrá það að fara í sund og í ræktina, borgað samviskusamlega sín gjöld og hlýtt fyrirmælum sóttvarnalæknis. https://t.co/FeDXBfviJ5
— Ásta Helgadóttir (@asta_fish) April 12, 2021
Orkustöðin er lokuð. Ég er svo heppin að hún er í eigu systur minnar, sem bauð mér með sér á æfingu. Við erum saman í "fjölskyldubúbblu". Aðrir hafa ekki aðgang að stöðinni. En ég skil vel að fólk sé farið að þrá sund og rækt.
— Silja Dögg Gunnarsdóttir (@silja_dogg) April 12, 2021