Sigurjón M. Egilsson, ritstjóri Miðjunnar, gerir leiðara Morgunblaðsins í dag að umtalsefni í pistli á vef sínum. Í leiðaranum, sem ber yfirskriftina Horfa skal bitur um öxl, skrifar leiðarahöfundur meðal annars um fylgi Sjálfstæðisflokksins.
Sigurjón er ekki í nokkrum vafa um að Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, haldi þar á penna og segir að í leiðaranum rifji Davíð upp horfna tíð þegar fylgi Sjálfstæðisflokksins var annað og meira en nú um stundir.
„Það er ekki bara Davíð sem voga sér að gagnrýna Bjarna og flokkinn og hvernig fylgið hefur hrunið af honum í formannstíð Bjarna,“ segir Sigurjón sem rifjar einnig upp skrif Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í gær þar sem hann viðraði áhyggjur sínar af litlu fylgi flokksins meðal ungra kjósenda.
„Nú skulum við hinkra við. Hefur Davíð efni á að ybba gogg? Varla. Nýjasta mæling segir að miðaldra fólk og yngra hefur snúið baki við Mogganum og Davíð. Nokkuð vel innan við tíu prósent miðaldra fólks og yngra les Moggann, 9,4 prósent segir Gallup. Nú er hún Snorrabúð stekkur. Það er greinilega allt á fallandi fæti hjá Flokknum og fylgitunglum hans,“ segir Sigurjón.