Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hefur að mestu verið í felum frá því hann djammaði fram úr hófi á bændaþingi fyrir nokkrum vikum og missti út úr sér rasísk ummæli um framkvæmdastjóra Bændasamtakanna sem er íslensk kona af erlendum uppruna og heldur dekkri yfirlitum en flestir fölir og gráir landar hennar.
Sigurður Ingi og aðstoðarfólk hans reyndu að breiða yfir hneykslið og gerðu tilraunir til af afvegaleiða fjölmiðla vegna málsins. En það tókst ekki. Fjölmiðlar sinntu sínu hlutverki sem leiddi til þess að seint og um síðir baðst ráðherra afsökunar þótt með hangandi hendi væri.
Eftir þetta hvarf Sigurður Ingi að mestu út úr umræðunni og fór í felur. Trúlega hefur hann metið það svo að það myndi hjálpa flokki hans mest að hann sjálfur sæist sem minnst í aðdraganda kosninga í næstu viku. Án efa var það rétt mat.
Sigurður hefur gert ráð fyrir því að tíminn lækni öll sár. Trúlega hefur hann og ráðgjafar hans ofmetið það því að máli hans er ekki lokið og þjóðin lítur Sigurð Inga ekki sömu augum eftir að hann lét rasísk ummæli falla. Ráðherrar eru fyrirmyndir og þessi framkoma var ekki til fyrirmyndar. Mál Sigurðar Inga er óuppgert á Alþingi þar sem hann hefur verið kærður fyrir brot á siðareglum þingsins. Mál hans verður því tekið upp að nýju þegar þingið kemur saman að nýju þann 16. mai að kosningum loknum.
Í fréttum Stöðvar 2 í gær birtist Sigurður Ingi svo með yfirlýsingu um að Reykjavíkurborg ætti ekki að halda áfram að undirbúa land til íbúðabygginga við enda flugvallarins í Skerjafirði eins og unnið hefur verið að í all langan tíma án þess þó að ráðherra hafi tjáð sig um fyrirhugaðar framkvæmdir fyrr en núna, rúmri viku fyrir kosningar.
Umræður um mörkin milli byggingarlands og flugvallarstarfsemi hafa staðið á milli borgarinnar og Isavía að undanförnu. Talsmaður Ísavía um málið hefur verið Sigrún Jakobsdóttir, fyrrum bæjarstjóri Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Hún hefur vísað í úttekt hollenskra sérfræðinga sem lögðu mat á það hvort flugöryggi gæti minnkað vegna fyrirhugaðrar íbúðabyggðar en vísað málinu frá Isavía. Í niðurstöðum skýrslunnar frá Hollendingunum kemur m.a. fram að út frá öryggissjónarmiðum væri áhættan af uppbyggingunni fyrir flugöryggi „ekki óásættanleg“ og „ætti að vera álitin þolanleg“ en til þess þyrfti að grípa til ákveðinna mótvægisaðgerða.
Stöð 2 ræddi einnig við borgarstjóra sem benti á að kaupsamningi og afsali um landið sem hér um ræðir hafi verið þinglýst árið 2016 þannig að enginn þyrfti að velkjast í vafa um stjórnarskrárvarið eignarhald á umræddu landi. Dagur sagði að hér væri ekki um stórt ágreiningsmál að ræða sem ætti erindi í dómstóla heldur yrði það leyst í sátt.
Greinilegt er að hér var á ferðinni pólitískt upphlaup af hálfu Sigurðar Inga sem engin áhrif hefur. Ráðherrann gerði veikburða tilraun til að koma framboði Framsóknar til hjálpar í kosningabaráttunni í Reykjavík enda hefur oddvita flokksins gengið erfiðlega að útskýra hvers vegna í ósköpunum kjósendur í Reykjvík ættu að velja landsbyggðarflokkinn Framsókn til að koma nærri stjórn borgarinnar.
Í Alþingiskosningum hafa kjósendur í Reykjavík hálft atkvæði saman borið við landsbyggðina. Ábyrgð á því misrétti liggur hjá Framsókn sem alla tíð hefur komið í veg fyrir eðlilega jöfnun atkvæða landsmanna. Reykvíkingar og nærsveitarmenn þeirra ættu að muna þetta þegar þeir greiða atkvæði í kosningunum eftir rúma viku.
Vilji Sigurður Ingi reyna að hjálpa framboðum Framsóknarflokksins í kosningabaráttunni – væri sennilega ráðlegast fyrir hann að fara bara aftur í felur!
- Ólafur Arnarson.