Sigurður ingi er búinn að tortíma framsóknarflokknum

Fylgi Framsóknarflokksins er hrunið. Í nýrri Gallup-könnun mælist flokkurinn einungis með 7.2% stuðning ef kosið yrði til Alþingis nú. Framsókn galt afhroð í þingkosningunum fyrir ári, fékk þá 10.7% atkvæða sem er það minnsta sem flokkurinn hefur mælst með í hundrað ára sögu sinni. Skoðanakönnun Gallup sem unnin var allan októbermánuð er á svipuðum nótum og kannanir hafa verið á síðustu mánuðum. Flokkurinn er að festast í svona lélegu fylgi, kringum 7% sem gæfi honum einungis fjóra þingmenn. Ekkert bendir til þess að Framsókn sé að fara að rífa sig upp úr þessu. Frekar að flokkurinn lendi enn neðar og komist í þá stöðu að ná ekki manni inn á þing þegar kosið verður næst en framboð þarf að fá 5% eða meira til að ná fulltrúa inn á Alþingi.

 

Fari svo að Framsóknarflokkurinn hverfi algerlega út af Alþingi, rétt eins og hann er horfinn úr borgarstjórn Reykjavíkur, þá munu margir segja að það geri lítið til og að Miðflokkur Sigmundar Davíðs leysi Framsókn af hólmi. Það er ekki alveg svo einfalt. Þessir tveir flokkar eru líkir en ekki eins. Í Miðflokknum er talsvert af öfgahægrimönnum úr Sjálfstæðisflokknum sem hafa fært sig um set vegna þess að þeir telja gamla flokkinn sinn of linan. Fylgi Miðflokksins er að hluta til komið úr Framsókn en það er einnig sótt lengst út á hægri kantinn í Mogga-arm Sjálfstæðisflokksins og til annarra harðlínumanna lengst til hægri. Svo virðist sem mun meiri hljómgrunnur sé fyrir Sigmundi Davíð og Miðflokknum en Sigurði Inga og Framsókn. Allir sjá að flokkurinn er í kjánalegri stöðu að mælast með 7.2% fylgi en hafa samt 8 þingmenn og 3 ráðherra út á svo lítið fylgi. Það er minna en 1% kjósenda á bak við hvern þingmenn Framsóknar um þessar mundir! Það er ekki boðlegt frekar en að 2.4% kjósenda séu á bak við hvern ráðherra flokksins. Þetta er vandræðaleg staða, svo ekki sé meira sagt.

 

Hvers vegna er staða Framsóknar svona slæm? Ástæðan er trúlega sú að kjósendur eru búnir að sjá í gegnum flokkinn og forystu hans. Hentistefnan er alger. Flokkurinn hefur ekkert annað á dagskrá en að hanga inni í ríkisstjórn. Ráðherrastólar skipta öllu máli svo og hagsmunagæsla fyrir þrönga hagsmuni sjávarútvegs og landbúnaðar. Allt annað er til sölu hjá Framsókn fyrir lítið. Kjósendur hafa áttað sig á því að Framsóknarflokkurinn er óþarfur. Fátt bendir til þess að Sigurði Inga og félögum takist að breyta þeirri stöðu.

 

Framsókn hefur nú 8 þingmenn. Helmingur þeirra félli ef kosið yrði nú. Miðað við óbreytta framboðslista næðu einungis eftirtaldir kjöri: Sigurður ingi Jóhannsson, Þórunn Egilsdóttir, Ásmundur Einar Daðason og Willum Þór Þórsson en þessir þingmenn féllu: Lilja Alfreðsdóttir, Silja Dögg, Leineik Anna og Halla Signý Kristjánsdóttir.

 

Svo virðist sem Miðflokkurinn sé í sókn og muni styrkja sig á næstunni samhliða því að Framsókn haldi áfram að gefa eftir.

 

Rtá.