Sigurður ingi blekkti flokksþing framsóknar

Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknar beitti félaga sína á flokksþingi um helgina ótrúlegum blekkingum þegar hann hélt því fram í ræðu sinni að hann væri búinn að finna fjármuni til tugmilljarða átaks í samgöngumálum. Þingfulltrúar göptu af hrifningu út af þessu og fjölmiðlar slóu þessu upp sem helstu frétt af þinginu.

 

En hér var um sannkallaða “EKKI-FRÉTT” að ræða.

 

Sigurður Ingi sagði að nú ætti að nota arð af eignarhlutum ríkisins í bönkunum til að fjármagna stórátak í samgöngukerfi landsmanna. Nú væru peningar fundnir í þetta brýna verkefni. Og Framsóknarmenn klöppuðu af hrifningu.

 

Sannleikurinn er sá að um langt árabil hefur ríkið fengið tugi milljarða króna á ári inn á fjárlög í arð frá ríkisbönkunum. Landsbankinn hefur skilað ríkinu miklum arðstekjum árum saman, þar á meðal í tíð ríkisstjórna sem Sigurður Ingi hefur setið í. Nú er Íslandsbanki alfarið kominn í eigu ríkisins og skilar einnig gríðarlegum arðstekjum í ríkissjóð. Þessir peningar eru taldir með öðrum tekjum ríkisins á fjárlögum og þegar er búið að ráðstafa þeim til almennra útgjalda ríkisins. Arðinum af bönkunum er þegar ráðstafað og honum verður ekki ráðstafað aftur. Maður notar sama peninginn bara einu sinni til greiðslu. Það ætti samgönguráðherra að vita!

 

Það hafa engir nýjir peningar fundist. Þegar hann talar um að nú sé búið að selja 13% hlut í Arion-banka og því séu til peningar, 24 milljarðar króna, sem nota megi til samgönguframkvæmda, þá hlýtur hann einnig að vita betur. Á því hefur verið ríkur skilningur ríkisstjórn fram af ríkisstjórn að söluandvirði eignarhluta í bönku verði notað til að greiða niður skuldir ríkisins, m.a. skuldir sem stofnað var til eftir hrun til að endurfjármagna bankana. Það hafa engar pólitískar ákvarðanir verið teknar um að snúa af þeirri ábyrgu braut að nota söluandvirðið til niðurgreiðslu ríkisskulda.

 

Því er ljóst að formaður Framsóknar blekkti félaga sína á flokksþinginu með þessum ómerkilega málflutningi.

 

Hann teygði sig býsna langt til að koma ekki alveg tómhentur til þessa fundar en ríkisstjórnin hefur ekki unnið nein afrek þessa fyrstu 100 daga á starfsferli sínum. Tíminn hefur farið í vandræðamál og varnarbaráttu fyrir dómsmálaráðherra sem hlotið hefur dóm í Hæstarétti fyrir embættisafglöp, í umræður um sjálftöku þingmanna vegna kostnaðar sem felldur er á Alþingi, skattsvik Alþingismanna og ráðherra vegna hlunninda sem ekki eru greiddir tekjuskattar af og önnur vandræðaleg mál. Engin alvöruumbótamál hafa komið til kasta þingsins og því er ekki um margt að ræða til að státa af.

 

Menn eru þegar farnir að velta því fyrir sér í alvöru hversu lengi verður hægt að halda þessu stjórnarsamstarfi saman með handafli. Margt bendir til þess að með 100 dögum sé liðinn fjórðungur líftíma þessarar vinstristjórnar.

 

Rtá.