Sigurður ingi ætti að leiða næstu ríkisstjórn

Framsóknarflokkurinn vann sögulegan sigur í kosningunum með því að halda átta þingmönnum sínum þrátt fyrir klofning.
Það er mikið afrek. Þó Sigmundur Davíð sé eins og hann er með brogaða fortíð og Tortóla-ímynd sína, þá er hann engu að síður fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknar. Í ljósi þess er enn sterkara að hafa haldið þingmannafjölda flokksins.
 
Sigurður Ingi Jóhannsson er því sá stjórnmálaleiðtogi sem kemur nógu sterkur út úr kosningunum til að geta leitt ríkisstjórn og unnið traust þings og þjóðar.
 
Sjálfstæðisflokkurinn er svo laskaður eftir að hafa misst fimm þingmenn að formaður hans er engan veginn fær um að leiða ríkisstjórn. Flokkurinn er kominn niður í 16 þingmenn sem er það sama og hann hafði eftir kosningar 2009 í kjölfar hrunsins.
 
Katrín Jakobsdóttir getur heldur ekki gert tilkall til embættis forsætisráðherra eftir að hafa einungis bætt við einum þingmanni í stað fjölmargra eins og vænst var og spáð. Ljóst er að stefnu VG í skattamálum og öðru var hafnað í kosningunum.
 
Hvort sem ný ríkisstjórn verður mynduð frá miðju og til hægri eða frá miðju og til vinstri, þá er Sigurður Ingi eini maðurinn sem er líklegur til að geta náð sátt í þinginu og notið virðingar þjóðarinnar.
 
Framsókn er límið á miðjunni.
 
Rtá.