Fjölmiðlakonan Sigrún Ósk Kristjánsdóttir, eiginkona Jóns Þórs Haukssonar, fyrrverandi landsliðsþjálfara kvennalandsliðsins, skaut nokkuð föstum skotum á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi eftir að tilkynnt var að kvennalandsliðið í fótbolta hefði verið valið lið ársins.
Þrjár vikur eru síðan Jón Þór hætti með liðið eftir að hafa farið yfir strikið í samræðum við leikmenn liðsins. Það gerðist eftir að íslenska liðið tryggði sér sæti á EM eftir sigur á Ungverjalandi í byrjun mánaðarins.
Sigrún Ósk deildi frétt Vísis um valið á liði ársins á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi og sagði:
„Noh! Magnað að hauslaus her hafi rambað á þetta fína EM sæti. Hefði verið gaman að sjá árangurinn ef þær hefðu verið með almennilegan þjálfara.“
Kvennafótboltinn sópaði að sér verðlaunum þegar Samtök íþróttafréttamanna tilkynntu val sitt á íþróttamanni ársins í gærkvöldi. Þannig var Sara Björk Gunnarsdóttir valin íþróttamaður ársins, Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari ársins og kvennalandsliðið lið ársins sem fyrr segir.
Þess má geta að Jón Þór Hauksson varð sjöundi í valinu á þjálfara ársins. Eflaust hefur atvikið eftir sigurinn á Ungverjum haft talsverð áhrif á þá niðurstöðu, enda náði kvennalandsliðið mögnuðum árangri á árinu.