Sigríður hallgrímsdóttir þorir að tala um siðferði

Þegar aðstoðarmaður Illuga Gunnarssonar, fyrrverandi menntamálaráðherra, leyfir sér að gagnrýna aðra fyrir meintan skort á siðferði, þá er við því að búast að margir sperri eyrun.

Á baksíðu Fréttablaðsins birtist greinarstúfur eftir Sigríði sl. laugardag þar sem hún setur sig á háan hest og heldur því fram að Pírata skorti siðferði. Um er að ræða ómerkilegt pólitískt hnútukast en Sigríður þessi hefur lengi verið handlangari og sendill hjá Sjálfstæðisflokknum.

Þessi skrif skiptu engu máli nema vegna þess að Sigríður var aðstoðarkona Illuga Gunnarssonar þegar hann var menntamálaráðherra frá 2013 til 2016. Illugi er einn siðlausasti stjórnmálamaður Íslands á síðari áratugum. Er þó af ýmsu að taka.

Á stuttum ráðherraferli þurfti Illugi að svara fyrir vægast sagt vafasöm fjárhagstengsl við fyrirtækið Orka Energy sem naut sérstakrar fyrirgreiðslu ráðherrans sem illa gekk að skýra eða réttlæta.

Nær allir fjölmiðlar landsins fjölluðu ítarlega um málið. Þeim gekk erfiðlega að fá svör frá ráðherra og aðstoðarkonu hans sem fóru undan í flæmingi og reyndu að afvegaleiða fjölmiðla.

Siðferðisviðmið Illuga og Sigríðar náðu ekki til þess að segja fjölmiðlum satt um fjárhagsklúður ráðherrans. Illugi hætti í stjórnmálum enda rúinn trausti.

Því er skörin farin að færast upp í bekkinn þegar Sigríður Hallgrímsdóttir gagnrýnir aðra fyrir siðleysi. Hún hefði betur látið það ógert.