Óhætt er að segja að talsverð óánægja ríki meðal íbúa í Vesturbænum vegna þeirrar ákvörðunar að loka pósthúsinu í Bændahöllinni við Hagatorg. Til stendur að loka pósthúsinu í janúar næstkomandi.
Sigríður Hagalín Björnsdóttir, rithöfundur og fréttamaður á RÚV, gerði þetta að umtalsefni á Facebook-síðu íbúa í Vesturbænum og hafa margir tekið undir.
„Pósthúsinu okkar verður lokað! Alltaf brjálað að gera þar, og þjónustan samt svo frábær. Og bara eitt pósthús eftir vestan Elliðaáa - ég verð að viðurkenna að ég skil þetta ekki, til hvers er Pósturinn eiginlega?“
Egill Helgason, fjölmiðlamaður og kollegi Sigríðar á RÚV, tekur undir.
„Alveg óskiljanlegt. Við höfum verið með pósthólf þarna, áður niðri í Austurstræti - og nú hvað? Í Síðumúla? Þetta er ekki boðlegt.“
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, fyrrverandi fjölmiðlakona, hristir einnig hausinn yfir þessari ákvörðun.
„Ég aldrei komið þarna öðruvísi en að þurfa að standa í langri biðröð. Nú er lokað vegna þess að of fáir nota pósthúsið??? Það skilar örugglega nokkrum krónum í kassa eigenda en þjónustan verður hræðileg.“
RÚV greindi frá því um helgina að ástæða þess að pósthúsinu verður lokað sé samdráttur í bréfasendingum. Þeim hefur fækkað um 75% frá árinu 2010 en á sama tíma hafi pakkasendingum fjölgað til muna.