Oft veltir lítil þúfa stóru hlassi er máltæki sem á afar vel við núna eftir að Sigríður Andersen, fráfarandi dómsmálaráðherra,
hefur orsakað fall ríkisstjórnarinnar með ömurlegri stjórnsýslu sinni. Framkoma Sigríðar og síðar Bjarna Benediktssonar hefur orsakað trúnaðarbrest og hneykslan vegna tilburða hennar til að fela aðkomu föður forsætisráðherra að skelfilegu máli.
Nú verður afar forvitnilegt að fylgjast með viðbrögðum Sjálfstæðisflokksins gagnvart afglöpum hennar. Mun flokkurinn bjóða Sigríði fram í komandi kosningum eins og ekkert hafi gerst? Eða verður henni fórnað?
Þá þykir staða Brynjars Níelssonar afar veik eftir framgöngu hans í stöðu formanns eftirlits-og stjórnskipunarnefndar þingsins. Ljóst er að hann beitti þar valdi sínu til að þvælast fyrir og freista þess að þagga málið niður. Framkoma hans í fjölmiðlum undanfarna daga hefur heldur ekki orðið honum til vegsauka. Menn hafa ekki þekkt hann fyrir sama mann og áður.
Dómharka hans og hroki vegna falls ríkisstjórnarinnar veldur mörgum heilabrotum. Hefur Brynjar eitthvað að fela vegna þessara mála sem hann óttast að komi upp á yfirborðið þegar vald til að halda lokinu á ormagryfjummi hverfur?
Það hlýtur að freista Sjálfstæðismanna að fórna bæði Sigríði Andersen og Brynjari með því að ýta þeim báðum út af framboðslistunum í Reykjavík. Með því yrði vígstaða flokksins skárri.
Þeir sem þekkja til flokkseigenda í Sjálfstæðisflokknum vita að hvorugu þeirra verður fórnað vegna þess að þau tilheyra bæði harðlínuöflum flokksins sem öllu ráða.
Þau verða bæði áfram í framboði - og flokknum mun blæða.
Rtá.