Flokkseigendafélag sjálfstæðismanna í Reykjavík tekur núna út miklar þjáningar vegna prófkjörsins um næstu helgi. Menn óttast að Guðlaugur Þór verði sigurvegari prófkjörsins og muni leiða annan lista flokksins í Reykjavík.
Illugi Gunnarsson og stuðningsmenn hans sjá rautt yfir þeirri tilhugsun að Gulli standi eftir með pálmann í höndunum á sama tíma og Illugi hrökklast frá en þeir hafa tekist á í flokknum í 20 ár, allt frá Heimdallarárum.
Því var farið af stað til að freista þess að fá einhvern til að bjóða sig fram í annað sætið gegn Guðlaugi Þór. Enginn ljáði máls á því - nema Sigríður Andersen sem gefur kost á sér í sætið gegn Guðlaugi.
Þetta er í besta falli fyndið en þó miklu frekar sorglegt fyrir aumingja Sigríði.
Hún hefur nær engan stuðning og afar takmarkaðan kjörþokka. Með þessu brölti gæti hún rúllað niður listann og goldið afhroð í prófkjörinu því staða Guðlaugs Þórs innan flokksins í Reykjavík er afar sterk.
Flokkseigendur verða væntanlega fyrir enn einu áfallinu af þessum sökum.