Sigrar feðraveldið alltaf?

Ég er hugsi eftir að hafa horft á þátt Rúv um stúlkurnar frá Kleppjárnsreykjum sem mér fannst að mörgu leyti ágætur en ekki sérlega vel pródúseraður.

Söguna hafði ég áður kynnt mér lítillega og lært sitthvað um í námi mínu í félagsfræði, kynjafræðum og einum mannfræðikúrsi.

En sú spurning stendur efst eftir í mínum huga eftir að hafa horft á þáttinn í Ríkissjónvarpinu, hvort sök Jóhönnu Knudsen og ábyrgð hennar á ofsóknum hafi yfirskyggt ábyrgð annarra með efnistökum þáttagerðarmanns.

Mér fannst um of einblínt á Jóhönnu sem sökudólg, því sannarlega starfaði hún í umboði annarra. Ég hefði viljað sjá frekara uppgjör gagnvart t.d. Ástandsnefndinni. En þar sátu menn sem taldir hafa verið helgir. Er sú ein ástæða þess að Jóhanna liggur ein við höggi?

Annað vakti athygli mína, sem sagt að kerfið skyldi ráðast að stéttlægri konum og þá ekki síst börnum einstæðra mæðra. Löngum hefur verið barið inn í okkur að ef ekki sé karl á heimilinu geti farið illa. Kannski er það enn svo.

Þátturinn hefði getað fjallað um yfirráð íslenskra karla plús kynþáttahygju í bland við hroka útnáramannsins sem við Íslendingum vorum í stríðinu og bæði fyrr og síðar líka eins og umræða um flóttafólk er til vitnis um.

Sú spurning vaknar að loknu áhorfi hvort feðraveldið sigri alltaf?

Jafnvel þegar gerðar eru heimildarmyndir um hráefni sem virðist klæðskerasaumuð ádeila á kynjakerfið? Og jafnvel þótt góðir femínistar, í þessu tilviki vandaður fréttamaður hjá Rúv, vinni myndina.

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)