Eftir þann trúnaðarbrest sem orðið hefur milli forsætisráðherra og þjóðarinnar verður ekki hjá því komist að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segi af sér. Hann hefur haldið leyndum stórkostlegum fjárhagslegum hagsmunum fyrir þingi og þjóð. Hann deilir ekki kjörum með Íslendingum. Hann vill að við lifum við íslenska krónu á meðan hann hefur auðæfi fjölskyldu sinnar utan við Ísland og varðveitir þau í skattaskjóli á Tortóla þaðan sem hann getur stundað viðskipti um allan heim í hvaða alvörumynt sem er. En fyrir okkur, kjósendur á Íslandi, er íslensk króna í lokuðu umhverfi nógu góð.
Hræsnin er alger og tvöflednin. Ráðherrann hefur skráð lögheimili sitt á eyðibýlinu Hrafnabjörgum 3 í Jökulsárhlíð á Fljótsdalshéraði, býr sjálfur í Garðabæ og geymir eigur þeirra hjóna á Tortóla. Hann getur ekki komið hreint fram varðandi eitt eða neitt.
Jónas Kristjánsson skrifar eftirfarandi á vef sinn undir fyrirsögninni Siðrofi segi af sér:
“Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hélt leyndum hagsmunum sínum af peningum eiginkonu sinnar í skattaskjóli á Tortola. Leyndum fyrir öllum, þar á meðal samherjum og samstarfsflokki. Sumir segja það í lagi, því hann hafi ekki brotið lög. Málið snýst þó um siðrof fremur en lögbrot. Forsætisráðherra verður að vera hafinn yfir grun um hugsanlega hagsmunagæzlu. Hafði færi á að gæta hagmuna þessara peninga. Einnig segja verjendur, að Sigmundur sé ekki tengdur eiginkonu sinni. Hann er þó ekki bara tengdur henni, heldur öllu sínu “tengdafólki”. Orðið segir allt, sem segja þarf um þá lélegu röksemd. Sigmundur Davíð á að segja af sér.”
Alþingi og ríkisstjórn verða óstarfhæf þar til Sigmundur Davíð segir af sér. Hann verður að fara. Því fyrr þeim mun betra – fyrir alla; hann sjálfan, Framsóknarflokkinn, ríkisstjórnina og síðast en ekki síst þjóðina.
Engin ástæða er til að boða til kosninga vegna afsagnar forsætisráðherra. Það þarf einungis að skipta um karl í brúnni. Framsókn á reyndar engan sem gæti tekið við. Eðlilegast væri að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, myndaði nýja ríkisstjórn núverandi stjórnarflokka og yrði forsætisráðherra. Framsókn gæti þá fengið ráðuneyti hans í staðinn.
Með þessu gæti opnast einstakt tækifæri til að skipta út óhæfum ráðherrum. Þannig væri hægt að losna við Illuga Gunnarsson, sem er rúinn trausti eftir fjármálasukk í tengslum við Orka Energy og Ragnheiði Elínu Árnadóttur sem hefur algerlega brugðist sem ráðherra iðnaðar og ferðamála. Einnig fengju framsóknarmenn tækifæri til að fríska upp ráðherralið sitt sem ekki er til stórræðanna. Má þar nefna að Eygló Harðardóttir kemur engum málum í gegn og Sigrún Magnúsdóttir virðist vera algerlega týnd. Hún mun vilja draga sig í hlé vegna aldurs og þreytu.
Ef Sigmundur Davíð víkur og Bjarni Benediktsson fær að spreyta sig sem forsætisráðherra gætu runnið upp nýjir og betri tímar í stjórnmálum á Íslandi.