Það virðist léttari blær innan Alþingis nú en í sumar þegar gallskaflarnir voru nálægt því að drekkja öllu kviku.
Aukin birta yfir þinginu kom í ljós strax í stefnuræðu forsætisráðherra sem var hógværari en oft áður. Sama má segja um ýmsar málefnalegar ræður að stefnuræðunni lokinni. Kannski má rekja stefnubreytingu eða a.m.k. góðan hug til stefnubreytingar til þess að þingmenn hafa nú verið löðrungaðir í skoðanakönnunum lengi samfellt, flestir aðrir en Píratar, sem margir líta á sem e.k. flóttamannahæli hinna landlausu í pólitík hér á landi. Píratar hafa líka samsamað sig hinni árvökulu og gagnrýnu manneskju sem þykist þó ekki vita meira en hún veit. Hin venjulega manneskja er t.d. með sjálfstraust sem þýðir að hún þarf ekki að breiða ekki yfir eigin veikleika, hefur fátt að fela. Hún kemur einlæglega fram og ræðir jafnt sorgir sem sigra eins og birtist skýrt hjá Birgittu Jónsdóttur í viðtali á Hringbraut og sagt er frá hér.
Þingheimur mætti vel vakna allur til meðvitundar um að andúð þjóðarinnar á störfum þeirra má að miklu leyti rekja til hrokans sem ráðandi hópar hafa upphafið, andstæðu auðmýktarinnar. Sem fyrirmynd annarra vinnustaða hefur Alþingi setið í neðsta sæti, þjóðin hefur starað agndofa á ósköpin. Ein ástæða aukins sundurlyndis á þingi er vitaskuld meiri pólarísering milli íhaldssamra og breytingasinna en fyrir hrun. Valdhroka og skorti á virðingu fyrir ólíkum skoðunum er þó sennilega ekki síður um að kenna. Dæmi um þetta er ef þingmaður í minnihlutanum ber upp fyrirspurn við ráðherra að umræðuefnið sjálft hefur gjarnan flúið af vettvangi, haft sig á brott hið snarasta, vikið fyrir sviguryrðum og hatrammri persónupólitík þar sem hver og einn talar í vélrænum frösum. Fólk sem er vant því að leysa sín mál sjálft með öðrum hætti en ribbaldagangi hlýtur að missa trú sína á Alþingi í slíku árferði.
Þannig var síðasta þing, en dæmi um samskipti sem gætu gefið til kynna batnandi tíma var þegar Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, átti fyrr í dag umræðu við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra um hug framsóknarmanna til að selja hlut í Landsbankanum. Fyrirspurnin virtist í fyrsta lagi ekki pirra forsætisráðherra sem var ákveðinn léttir fyrir þá sem þekkja Stokkhólmsheilkennið! Sigmundur Davíð viðurkenndi ágallana á íslensku efnahagsumhverfi, gagnrýndi líka Landsbankann fyrir að sinna ekki viðskiptavinum sínum betur í ljósi sérstöðu hans sem ríkisbanka. Hann gagnrýndi áform um byggingu nýrra höfuðstöðva og ræddi það böl fjármálakerfisins sem birtist í allt of háum vöxtum. Allt var þetta hressandi og kom sumpart úr annarri átt en vanalega. Varðandi fyrirspurnina sjálfa benti þó svar forsætisráðherra til að það væri langt í frá pólitísk sátt meðal meirihlutans um að selja hlut í Landsbankanum, enda hræða sporin.
Eitt augnablik leið þeim sem fylgdist með umræðunum eins og forsætisráðherra væri frjáls úr eigin viðjum. Á sama tíma hvarflaði ekki að manni að Katrín væri að bera upp fyrirspurn sína til að ná höggi á einn né neinn, heldur væru þau bara sannarlega að huga að almannahagsmunum eins og þeim ber.
Ísland getur kannski aftur einn daginn litið á sjálfa sig sem eina samlynda fjölskyldu. Í samlyndri fjölskyldu er rökræða svarið við álitaefnum. Fæstum dettur í hug að ofsafenginn hroki eða hávaðarifrildi skili góðu til heimilanna í landinu. Vélvæðing mannshugans eftir því í hvaða liði þingmenn standa fælir kjósendur frá. Þingmenn mættu læra nýja og betri siði. Segjum að námskeið sé hafið og að mótmæli almennings gegn yfirganginum hafi vísað veginn.