Verst geymda “leyndarmál” stjórnmála hér á landi hefur nú verið upplýst: Björn Ingi Hrafnsson, sem skildi nokkra fjölmiðla eftir í þroti upp á 700 milljónir króna, er genginn til liðs við klofningsframboð Sigmundar Davíðs.
Björn Ingi og Sigmundur hafa verið nánir í stjórnmálavafstri sínu og öllum mátti vera ljóst að Sigmundur hefði Björn Inga með sér þegar hann legði af stað í nýja pólitíska eyðimerkurgöngu sína. Ferill Björns Inga í stjórnmálum er mjög brösóttur en blóði drifinn í viðskiptum eins og viðskilnaður hans við fjölmiðlafyrirtækin sýnir. Um tíma lék grunur á að fjölskylda Sigmundar hafi verið á bak við rekstur Björns Inga fjárhagslega en því hefur hann mótmælt harðlega.
Ef kjósendur vilja treysta mönnum með mjög vafasaman feril að baki fyrir stjórn landsins, þá er illa komið. Almenn skynsemi mælir ekki með slíku vali. Verði það hins vegar niðurstaða kosninganna, þá má líta þannig á að almenn skynsemi sé ekki nógu almenn meðal kjósenda.
Spyrja má hvort ekki sé að vænta tíðinda af því að Gunnar Smári Egilsson gangi til liðs við Sigmund Davíð. Hann ætti að passa vel inn í myndina; setti Frétttímann á hausinn og fór svo rakleitt út í stjórnmálin í kjölfarið?
Nú er beðið eftir niðurstöðum stórra skoðanakannana sem birtast um komandi helgi. Fróðlegt verður að sjá fyrstu viðbrögð við framboði þessa öfgahægriflokks Sigmundar Davíðs. Einkum er spennandi að sjá hve mikið óánægjufylgi hann tekur frá Flokki fólksins en það er sá flokkur sem helst þarf að hræðast nýja framboðið sem mun gera út á að ná til óánægðra og öfgafullra kjósenda.
Önnur framboð þurfa varla að hafa miklar áhyggjur af þessum tilburðum.
Rtá.