Forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína á Alþingi og í kjölfarið fóru fram umræður um hana eins og hefð er fyrir. Þessu var sjónvarpað.
Helst bar til tíðinda að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknar, mætti í vinnuna sem varla hefur komið fyrir frá í apríl á síðasta ári þegar hann hrökklaðist úr starfi forsætisráðherra,
Hann hefur þó haldið fullum launum allan tímann þó hann hafi vanrækt starfið í þinginu.
Nú fékk Sigmundur að taka til máls af hálfu Framsóknar. Ræðan var sorgleg. Engin rök. Bara skætingur og svekkelsi hins sigraða. Hann mun ekki hafa lagað skaddaða ímynd sína með þessu.
Alls tók 21 þingmaður eða ráðherra til máls í þessum sjónvarpsumræðum. Allir reyndu að vera málefnalegir og bærilega hófstilltir - nema Sigmundur Davíð sem hafði engan hemil á gremju sinni yfir þeirri staðreynd að flokkur hans er kominn út í kuldann næstu fjögur árin.
Það er dapurlegt hlutskipti að vera bara óbreyttur þingmaður eftir að hafa upplifað dýrðina við ríkisstjórnarborðið.