Ásmundur G. Vilhjálmsson, háskólakennari við HÍ og einn helsti sérfræðingur þjóðarinnar á sviði skattaréttar, hefur tjáð sig í fjölmiðlum um tilraun Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar til að slá ryki í augu kjósenda vegna skattahneykslis þeirra hjóna sem leiddi til þess að hann hrökklaðist frá embætti forsætisráðherra í apríl 2016.
Ásmundur segir m.a. um Wintris-félag Sigmundar sem vistað var í skattaskjóli á Tortóla:
“Mestu máli skiptir að hann stofnaði þarna félag, hann duldi tilvist þess, taldi fram með röngum hætti og svo þegar hann var tekinn í bólinu þá var allt sett á fullt að skila inn nýjum skattframtölum.”
Í frétt um málið á Mbl.is segir ennfremur: “Ásmundur telur harla ólíklegt að Sigmundur og Anna Sigurlaug hefðu óskað eftir leiðréttingu á skattframtölum sínum nema vegna þess að upp komst um tilvist félagsins á Bresku Jómfrúreyjunum. Hann hefði aldrei farið að óska eftir endurákvörðun á opinberum gjöldum ef þetta hefði legir fyrir. Honum er eiginlega ýtt fram af bjarginu. Þetta er auðvitað forkastanlegt af manni í hans stöðu”.
Sigmundur Davíð leyndi tilvist Wintris og greiddi ekki skatta í samræmi við lög. Svo einfalt er það og sú staðreynd er kjarni þessa máls.
Nýjasta tilraun Sigmundar til að afvegaleiða kjósendur vegna þessa vandræðamáls er vægast sagt ósvífin í ljósi staðreynda. En honum mun ekki takast að blekkja kjósendur. Framtöl áranna 2011 til 2015 voru röng og tilraun til að lagfæra þau var ekki gerð fyrr en í mai 2016 eftir að upp komst um strákinn Tuma og Sigmundur Davíð hafði hrökklast úr embætti vegna Tortólahneykslisins.
Samhliða því að Sigmundur varpar fram þessari reykbombu, sem nú hefur sprungið í andlit hans, talar hann um málssókn á hendur fjölmiðlum en ekki fyrr en eftir kosningar! Eins segist hann hafa unnið að bók um valdaferil sinn í ríkisstjórn sem eigi að sýna að einhverjir hafi viljað múta honum og annað álíka trúverðugt. Sú bók á heldur ekki að koma út fyrr en eftir kosningar!
Því er spáð hér að hvorki komi til málssóknar né bókaútgáfu á vegum Sigmundar Davíðs eftir kosningar. Nú rignir reykbombum því örvænting hans er alger.
Rtá.