Oft berast fréttir að illindum í röðum Pírata, hér birtist eitt dæmi um þau þótt Sigmundur Davíð sé sakaður um ófyrirleitnina – Pírati gerðist handlangari hans.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (SDG), formaður Miðflokksins, sendi tölvubréf til þingmanna miðvikudaginn 15. apríl. Bréfið átti ekki að birtast opinberlega en gerði það á vefsíðunni visir.is fimmtudaginn 16. apríl. Þar stóð meðal annars:
„Þegar sjs [Steingrímur J. Sigfússon] segir ,,í fullri vinsemd“ er hann að gera eitthvað af sér. Það væri betra að sleppa fundi alveg en að hrúga einhverjum stjórnarmálum inn í nefndir. Því færri óumdeildum málum sem þau koma áfram þeim mun þrengra verður um sérstöku áhugamálin þeirra. Þeim mun meira færist yfir á síðasta þing kjörtímabilsins þar sem málin verða erfiðari bæði gagnvart stjórnarandstöðu og á milli stjórnarflokkanna.“
Boðskapurinn er: Stöndum gegn öllum málum sem stjórnin eða stuðningsmenn hennar flytja, jafnvel þótt þau séu óumdeild. Með því að hafa mörg mál á dagskrá, óumdeild og umdeild, verður erfiðara fyrir stjórnina að koma „sérstökum áhugamálum“ sínum í gegn. Söfnum sem flestum óafgreiddum málum á þinginu núna þá höfum við betra tækifæri á næsta þingi, síðasta þingi fyrir kosningar, til að spilla framgangi mála. Þetta segir málþófsforinginn.
Daginn eftir bréf Sigmundar Davíðs gekk Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, erinda hans og hindraði þingfund, fleiri sæktu hann en sóttvarnabann heimilaði. Síðan reyndi Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata og varaforseti alþingis, að aðstoða Jón Þór með því að segja Steingrím J. þingforseta lygara.
Sunnudaginn 19. apríl birti Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, grein á vefsíðunni Kvennablaðið undir fyrirsögninni: Merkilegasta pólitíska uppljóstrun síðari tíma.
Með þessum orðum vísar Björn Leví til þess sem Sigmundur Davíð sagði í fyrrnefndu tölvubréfi og vitnað er til hér að ofan. Telur hann orð formanns Miðflokksins „opinbera hversu óheiðarleg pólitíkin á Íslandi er. Hvert markmið margra stjórnmálamanna er í raun og veru. [...] Fólk er tilbúið til þess að fórna góðum málum til þess að koma í veg fyrir pólitísk ríkisstjórnarmál“.
Björn Leví segir jafnframt:
„Í stuttu máli þá þýðir þetta að ef hægt er að koma í veg fyrir að þingið afgreiði „óumdeild mál“ þá verður meira að gera fyrir Alþingi eftir því sem líður á kjörtímabilið. En hver er kostnaðurinn? Jú, óumdeildu málin, sem allir eru þá sammála um að séu betrumbót fyrir samfélagið, klárast síður. Þau klárast seinna og jafnvel ekki. [...]
En nú er það skjalfest að það eru til stjórnmálamenn sem eru tilbúnir til þess að fórna málum sem allir eru sammála um að séu til bóta fyrir samfélagið. Að fórna því sem er best fyrir alla þjóðina fyrir eigin hagsmuni í pólitík. Breytingar til batnaðar koma seint eða aldrei fyrir vikið.“
Þingmaður Pírata, Jón Þór Ólafsson, gekk erinda Sigmundar Davíðs í þingsalnum fimmtudaginn 16. apríl og krafðist þess að farið yrði að sóttvarnabanni og þingforseti sleit fundi. Í fyrsta sinn í þingsögunni fjölmenntu þingmenn minnihlutans á þingfund til að hindra störf Alþingis. Nú kemur Björn Leví, þingmaður Pírata, og segir þetta „óheiðarlega pólitík“.
Oft berast fréttir að illindum í röðum Pírata, hér birtist eitt dæmi um þau þótt Sigmundur Davíð sé sakaður um ófyrirleitnina – Pírati gerðist handlangari hans.
Björn Bjarnason