Siggi hakkari farinn af stað aftur: Guð­mundur – „Undir­skrift mín var fölsuð“

„Undir­skriftin mín var fölsuð á pappírana,“ segir Guð­mundur St. Ragnars­son lög­maður í nýjasta tölu­blaði Stundarinnar sem kom út í morgun. Þar er greint frá því að Sigurður Þórðar­son, betur þekktur sem Siggi hakkari, sé farinn aftur af stað.

Í fréttinni kemur fram að hann komi nú að sex fé­lögum og segir Guð­mundur að undir­skrift hans hafi verið fölsuð á pappírum sem áttu að sýna fram á hundrað milljóna króna hluta­fé í tveimur fast­eigna­fé­lögum.

Siggi hakkari var dæmdur í þriggja ára fangelsi árið 2015 fyrir brot gegn níu piltum sem á árunum 2011-2013. Þá var honum gert að greiða þeim alls 8,6 milljónir króna í miska­bætur. Alls var hann dæmdur fyrir tæp­lega sjö­tíu brot gegn piltunum, sem allir voru á ung­lings­árum þegar brotin áttu sér stað, þar af fjöru­tíu gegn einum þeirra.

Sigurður er einnig þekktur fyrir að hafa starfað fyrir Wiki­leaks. Hann byrjaði að hakka tölvur í kringum tólf ára aldur og starfaði síðar með Juli­an Ass­an­ge og fé­lögum í Wiki­leaks. Hann komst í heims­pressuna þegar sam­vinna hans og Ass­an­ge lauk með því að sá síðar­nefndi sakaði hann um að hafa dregið að sér fé sem átti að renna til sam­takanna. Hefur Sigurður verið eitt af lykil­vitnum FBI í rann­sókn á Wiki­leaks.

Guð­mundur segir í frétt Stundarinnar að hann hyggist leggja fram kæru vegna málsins. Honum vitan­lega hafi engin orðið fyrir tjóni vegna gjörningsins. „Ég get náttúr­lega ekki farið inn í huga þess sem fram­kvæmir svona vit­leysu, hver til­gangurinn var,“ segir hann.