„Undirskriftin mín var fölsuð á pappírana,“ segir Guðmundur St. Ragnarsson lögmaður í nýjasta tölublaði Stundarinnar sem kom út í morgun. Þar er greint frá því að Sigurður Þórðarson, betur þekktur sem Siggi hakkari, sé farinn aftur af stað.
Í fréttinni kemur fram að hann komi nú að sex félögum og segir Guðmundur að undirskrift hans hafi verið fölsuð á pappírum sem áttu að sýna fram á hundrað milljóna króna hlutafé í tveimur fasteignafélögum.
Siggi hakkari var dæmdur í þriggja ára fangelsi árið 2015 fyrir brot gegn níu piltum sem á árunum 2011-2013. Þá var honum gert að greiða þeim alls 8,6 milljónir króna í miskabætur. Alls var hann dæmdur fyrir tæplega sjötíu brot gegn piltunum, sem allir voru á unglingsárum þegar brotin áttu sér stað, þar af fjörutíu gegn einum þeirra.
Sigurður er einnig þekktur fyrir að hafa starfað fyrir Wikileaks. Hann byrjaði að hakka tölvur í kringum tólf ára aldur og starfaði síðar með Julian Assange og félögum í Wikileaks. Hann komst í heimspressuna þegar samvinna hans og Assange lauk með því að sá síðarnefndi sakaði hann um að hafa dregið að sér fé sem átti að renna til samtakanna. Hefur Sigurður verið eitt af lykilvitnum FBI í rannsókn á Wikileaks.
Guðmundur segir í frétt Stundarinnar að hann hyggist leggja fram kæru vegna málsins. Honum vitanlega hafi engin orðið fyrir tjóni vegna gjörningsins. „Ég get náttúrlega ekki farið inn í huga þess sem framkvæmir svona vitleysu, hver tilgangurinn var,“ segir hann.