Gleðihljómsveitin Ljótu hálfvitarnir hefur sett Útvarp Sögu í bann í þeim skilningi að útvarpsstöðin má ekki spila nein lög hljómsveitarinnar Ástæðan er sá áróður sem útvarpsstöðin hafi keyrt gagnvart innflytjendum.
„Við settum hana [Útvarp Sögu] í bann í gær,“ segir Þorgeir Tryggvason, einn hljómsveitarmeðlima í samtali við Hringbraut.
Hann vísar til tilkynningar sem Ljótu hálfvitarnir sendu frá sér í gær og skýrir hug hljómsveitarmeðlima:
„Hér með kunngjörist að ljósvakamiðlinum Útvarpi Sögu er með öllu meinað að spila nýja lagið okkar, Hosliló, eða nokkuð annað sem sem Ljótu hálfvitarnir hafa hljóðritað eða munu hljóðrita í framtíðinni. Bann þetta gildir svo lengi sem Útvarp Saga heldur áfram að ala á fordómum og mannhatri. Ef þau láta af þessum ósiðum verða þau að segja sorrý og baka köku handa okkur. Óholla köku, ekki eitthvað heilsukjaftæði. Með nammi helst. Eftir kökuátið metum við svo ástandið upp á nýtt.
Múslimum, og öllum jarðarbúum öðrum, viljum við hinsvegar færa frítt niðurhal að gjöf, http://bit.ly/ljotu_hosilo, og svo má líka bara hlusta hér: https://youtu.be/ffjVjX23X80
Ekki vera fávitar krakkar.\"
Kornið sem fyllti mælinn var að sögn Þorgeirs spurning Útvarps Sögu sem spurði hlustendur: „Treystir þú múslimum?“