Íslendingar þekkja það upp til hópa hvað rúðurnar á bílum þeirra geta verið grútskítugar - og það er ekki síst á þessum árstíma, þegar sólin er lágt á lofti, að bílstjórar bölva skýinu sem situr á utanverðri bílrúðunni eftir að aftakaveðrin hafa ausið saltinu og moldrykinu yfir allt og alla. Leigubílstjórar kunna við þessu ráð, enda sífellt að hugsa um bílana sína sem eru jú atvinnutæki þeirra og verða að líta vel út svo kúnninn njóti bílferðarinnar. Þetta einfalda ráð er úr þeirra ranni; settu bara nokkra dropa af uppþvottalegi út í rúðupissið og breytingin getur verið næsta alger. Og þetta minnir raunar á mörg hver húsráðin; þau eru oft betri eftir því sem þau eru einfaldari.