Setja þarf jafnan atkvæðisrétt á dagskrá

Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er þeirrar skoðunar að atkvæðisréttur allra eigi að vera jafn. Þetta kom fram í skoðanakönnun sem unnin hefur verið í tengslum við þá endurskoðun stjórnarskrárinnar sem nú fer fram.

Stjórnarskráin er um margt flókið lögfræðilegt fyrirbæri. Að sama skapi er ekki einfalt að setja fram spurningar til þess að fá fram viðhorf almennings í skoðanakönnun um einstök atriði hennar. Túlkun á niðurstöðum getur líka verið vandasöm. Og svo eru sum álitaefni óneitanlega flóknari en önnur.

En atkvæðisrétturinn er sennilega meðal þeirra álitaefna í stjórnarskránni þar sem tiltölulega auðvelt er að fá fram skýra mynd af viðhorfi almennings.

Hér hefur lengi viðgengist að atkvæði hafi mismunandi vægi eftir kjördæmum. Tilgangurinn er að vega upp á móti efnahagslegum og félagslegum aðstöðumun vegna búsetu. Ísland er ekki eitt um þetta. Í flestra augum er tilgangurinn líka skiljanlegur.

En eins og á öðrum sviðum er eðlilegra að ná slíkum markmiðum með öðrum ráðum en mismunun í atkvæðisrétti. Engum hefur til að mynda dottið í hug að jafna aðstöðumun vegna mismunandi tekna eða ólíkrar eignastöðu með misþungum atkvæðum.

Í framkvæmd verður atkvæðamismunun líka oft sérkennileg og í litlu samræmi við tilganginn. Þannig hafa þeir sem búa við nyrðra op Hvalfjarðarganga nærri tvöfalt ríkari atkvæðisrétt en hinir sem búa við opið sunnanvert. Og Akurnesingar hafa jafnvel haft þyngri atkvæði en íbúar á Raufarhöfn.

Það eru lýðréttindi að greiða atkvæði í kosningum. Jafn réttur allra í því efni telst einfaldlega til mannréttinda. Þau mannréttindi á ekki að nota sem skiptimynt þegar jafna þarf aðstöðumun í samfélaginu. Skoðanakönnunin sýnir svart á hvítu að þorri landsmanna lítur svo að tími sé kominn til að tryggja öllum sama atkvæðisrétt.

Meðan kjördæmi voru lítil og fámenn var möguleiki fyrir einstaka þingmenn að vera í nánu sambandi við kjósendur sína. Þegar kjördæmin voru fyrst stækkuð fyrir sextíu árum dofnuðu þessi tengsl. Kjördæmin voru svo enn stækkuð fyrir tuttugu árum. Eftir það má segja að kjördæmin þjóni ekki lengur þessum tilgangi. Í raun er hverfandi munur á því hvort landið er eitt kjördæmi eða sex varðandi möguleika á þeim lifandi tengslum sem lítil fámenn kjördæmi bjóða upp á. Samfélagsmiðlar hafa líka breytt veruleikanum í samskiptum stjórnmálamanna og kjósenda.

Fram til þessa hefur þetta skýra mannréttindamál að tryggja öllum jafnan atkvæðisrétt ekki verið í forgangi við endurskoðun stjórnarskrárinnar. En niðurstaða þessarar könnunar gefur tilefni til að hugsa það mál upp á nýtt.

Með öðrum orðum er full ástæða til að setja jafnan atkvæðisrétt á dagskrá við endurskoðun stjórnarskrárinnar.