Seinheppnir Heimdellingar á Alþingi

Á sama tíma og þjóðin er í hálfgerðu losti vegna heimsfaraldurs og samgöngubann er í gildi, virðist dómsmálaráðherra telja brýnast að hvetja til þess að veittar verði heimildir til að selja áfengi á netinu.

Þetta er í hæsta máta furðulegt og ber vott um pólitískt reynsluleysi. Þó dómsmálaráðherra sé ungur þá verður að gera lágmarkskröfur til hans um tímaskyn og smekkvísi. Umrædd forgangsröðun stenst ekki slíkar kröfur.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ungur Sjálfstæðismaður velur hörmulega tímasetningu á Alþingi til að tala fyrir rýmkun á reglum um sölu áfengis. Mjög er í minni sneypuför Sigurðar Kára Kristjánssonar þegar hann mælti fyrir þingsályktunartillögu um frjálsa sölu áfengis í byrjun janúar 2009. Það var á fyrsta þingdegi ársins. Á meðan Sigurður Kári hélt innblásna ræðu í þinginu um nauðsyn þess að hefja hömlulausa sölu áfengis í stórmörkuðum og á bensínstöðvum, söfnuðust þúsundir manna saman á Austurvelli til að grýta þinghúsið og kveikja elda.

Hálfgerð borgarastyrjöld var hafin sem endaði með því að ríkisstjórnin féll skömmu síðar. En þá þótti hinum unga Heimdellingi, Sigurði Kára, mestu varða að rýmka reglur um sölu áfengis!

Kjósendur losuðu sig við þingmanninn unga í kosningum skömmu síðar. Hann hvarf af hinu pólitíska sviði - enda lítil eftirspurn eftir svona dómgreindarleysi í landsmálum.

Áslaug Arna hefði þurft að muna örlög Sigurðar Kára í þessum áfengismálum og læra af þeim.