Segist mæta fordómum heilbrigðisstarfsfólks vegna fíknisjúkdómsins - þrjú krabbamein á tveimur árum - alma: „ég er tætt, lítil í mér, örmagna og sár“

„Það er mjög erfitt að veikjast alvarlega og vera fyrrum fíkill. Viðmótið er annað en við aðra og efasemdirnar alltaf til staðar. Þó ég þurfi nauðsynlega sterk lyf núna og fæ þau samkvæmt læknisráði þá eru alltaf efasemdir, alls staðar þar sem maður kemur í heilbrigðiskerfinu.“

Þetta segir Alma Geirdal ung þriggja barna móðir sem barist hefur við krabbamein í rúm tvö ár. Alma greindist fyrst með krabbamein í október árið 2017 og fór í kjölfarið í aðgerð þar sem annað brjóst hennar var fjarlægt. Gekk hún eftir aðgerðina í gegnum erfiða krabbameinsmeðferð sem tók mikið á Ölmu.

\"\"

Alma Geirdal hefur barist við krabbamein í yfir tvö ár

Viðmót lækna ömurlegt 

Í lok júní á þessu ári tók meinið sig svo upp aftur og þurfti Alma að fara aftur í aðgerð þar sem það var skorið í burtu. Hefur hún síðan þá verið í mikilli lyfjameðferð.

Það var svo fyrir nokkrum dögum sem Alma fann nýjan hnút í bringunni og áhyggjurnar sem fyrir voru jukust hratt. Samkvæmt Ölmu var viðmót lækna og heilbrigðisstarfsfólks við áhyggjum hennar vægast sagt ömurlegar og segist hún hafa upplifað falska von þegar enginn virtist trúa því að um þriðja krabbameinið væri að ræða.

„Einn geislalæknir giskaði á sýkta æð, skoðaði fjögurra daga gamla mynd og sýndi mér hnútinn þar og sagði bara að þetta væri sýkt æð. Setti mig á sterk sýklalyf sem fóru hrikalega í mig. Annar geislalæknir giskaði á eitthvað annað en krabba og var alveg handviss. Í Krabbameinsfélaginu þar sem ég fór í ómskoðun og grófnálasýnatöku var giskað á fitudrep. Svo var það bráðamóttakan sem giskaði á að ekkert væri til þess að hafa áhyggjur af, en þar fengum við einmitt rosalegar móttökur,“ segir Alma í viðtali við Hringbraut.

Alma segir að fjórir læknar sem hún fór til hafi aðeins giskað á hvað hnúturinn væri og gefið henni þar með falska von. Óskir hennar hafi verið virtar að vettugi og telur Alma það vera vegna fordóma í garð annars sjúkdóms sem hún þjáist af en hún barðist við fíknisjúkdóminn áður fyrr.

„Það kom læknir inn, deildarlæknir, og þreifaði og sagðist ætla að skoða möguleikana. Ég heimtaði mynd en var samt kurteis, ég er aldrei neitt annað en kurteis. Hún kom tveimur tímum seinna og sagðist vera búin að hringja víða þrátt fyrir að yfirlæknirinn hafi bannað það. Hann vildi ekki einu sinni hringja á krabbameinsdeildina.

Ég varð smá reið en aldrei dónaleg. Ég heimtaði að fá að tala við annan lækni og þá kom yfirlæknirinn, var tuddalegur strax, spurði hvort ég vildi heilsa sér. Sagði mig vera á vitlausum stað í kerfinu, að hér væri ekkert gert og að ég þyrfti að bíða í margar vikur. Hann sagði mér svo að ég hefði verið dónaleg við deildarlæknirinn og hann bauð mér að fara því annars myndi hann hringja á öryggisverðina,“ segir Alma við blaðamann.

Hræddist það versta

Þegar hér er komið við sögu er Alma nú þegar í meðferð við krabbameini sem þegar hafði fundist um sumarið. Alma var orðin virkilega áhyggjufull og var farið að hræðast það versta.

Í ljós kom eftir mikla baráttu Ölmu að um þriðja krabbameinið var að ræða.

„Hnúturinn sem ég fann í bringunni er illkynja krabbamein, sem segir okkur það að krabbinn sem kom fyrir tveimur árum hefur dreift sér á þrjá staði, tvisvar í bringu og svo í tvo eitla í holhönd,“ segir Alma sem hefur einungis hitt krabbameinslækninn sinn einu sinni í fimm mínútur síðan hún greindist í bæði skiptin aftur.

„Ég hef veikst tvisvar sinnum alvarlega síðan ég greindist með krabba númer tvö og hún veit ekkert. Tekur ekki við skilaboðum, hringir ekki og lætur hjúkrunarfræðinga lesa skilaboðin mín sem eru persónulega til henna. Næst ekki í hana og hún hundsar okkur. 

Greininguna á þriðja krabbameininu fékk Alma fyrir aðeins tveimur dögum í gegnum símtal við hjúkrunarfræðing. Illkynja krabbamein í brjósti/brjóstvegg.

„Mér líður illa. Gumma líður illa, börnunum okkar líður illa og eru hrædd, fólkinu mínu líður illa. Þetta er svakalega slæmt og erfitt. En ég ætla að sigra þennan fjanda með minni þrjósku og öryggi í baráttunni. Ég get, ég skal.“

Alma hefur verið opin um sín veikindi á Facebook síðu sem hún stofnaði í kjölfar seinni greiningarinnar. Hægt er að fylgjast með henni þar : Alman vs cancer

Fyrir þá sem vilja styrkja Ölmu og fjölskyldu á þessum erfiðu tímum er hægt að leggja inn á reikning:

Rkn: 0130-05-064210

Kt: 060979-3759