„Staða heimilanna er eiginlega alveg með ólíkindum. Við höfum ekki séð neitt þessu líkt hvað varðar stöðu íslenskra heimila. Skuldahlutfall þeirra er núna í sögulegu lágmarki,“ segir Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, í samtali við RÚV.is.
Þórarinn segir heimilin standa sig vel í sparnaði. „Sparnaðarstig þeirra er það hæsta sem hefur mælst. Þeirra efnahagsreikningar hafa aldrei verið eins sterkir.“ Stærsta ástæðan fyrir þessu séu aukin innlán heimila.
„Núna er Hagstofan að segja okkur að kaupmáttur ráðstöfunartekna 2017 hafi verið yfir 11 prósentum, sem er hreint með ólíkindum. Þannig að á heildina litið er staða heimilanna mjög góð og þau eru þannig stödd að þau eiga að geta staðið af sér einhvern brotsjó ef það fer að hægja hratt á stöðu efnahagsmála,“ segir Þórarinn einnig.
Hann telur heimilin hafa lært af hruninu. „Já, ég held að það sé hægt að fullyrða það. Þau hafa farið mun varlegar í útgjaldaákvarðanir heldur en þau gerðu áður.“