Segir björn val vera óþverra

„Björn Valur þekkir skyldur þingmanna í kjördæmum sínum og hefði verið í lófa lagið að spyrja, en hann er óþverri sem veður í menn.“

Ásmundur Friðriksson þingmaður segist reglulega frétta af óþverraskrifum Björns Vals Gísalsonar um sig og fleiri. Þetta kemur fram í svari Ásmundar við fyrirspurn Hringbrautar hvort Ásmundur hafi misvirt skyldur sínar en Björn Valur hefur gert opinberlega athugasemd við að Ásmundur hafi á annasamasta degi þingsins í vikunni sagt frá því á fésbók að hann hafi fengið frí frá þingstörfum og m.a. notað fríið í að kynna bók sína og lesa upp úr henni. Sjá frétt Hringbrautar hér.

„Ég hef ekkert séð eftir Björn Val en frétti reglulega af óþverraskrifum hans um mig og fleiri. Björn Valur þekkir skyldur þingmanna í kjördæmum sínum og hefði verið í lófa lagið að spyrja, en hann er óþverri sem veður í menn áður en hann spyr svo ekki er hægt að svara stungum hans sem eru jafnan í bakið á fólki,“ segir Ásmundur.

Um málið sjálft segir Ásmundur: „Fyrir nokkru síðan var ég búin að þiggja boð hjá Skipalyftunni í Vestmannaeyjum um að mæta í hóf sem fyrirtækið heldur á þessum tíma fyrir viðskiptavini og aðra gesti enda átti að vera komið jólafrí í þinginu. Ég skipulagði því ferðina til Eyja í tíma, en ég er þekktur fyrir að rækja skyldur mína víða í kjördæminu og stundum ber þær skyldur upp á þingtíma en ég tel ekki eftir mér að mæta þegar þess er óskað. Þær skyldur ber líka oft upp á kvöld eða helgar og ég er þakklátur fyrir hvað oft er óskað eftir því að ég mæti við margvísleg tilefni í kjördæminu og dreg ekki af mér við slíkar mætingar. Ég skipulagði því heimsókn mína til Eyja fyrir alllöngu með tilliti til jólafrís þingmanna og þar á meðal var kynning á bók minni hjá Eymundsson í Eyjum í tvær klukkustundir.“

Ásmundur neitar að hann hafi nokkuð til sakar unnið: „Til að halda öllu til haga þá skipulagði ég líka heimsókn til fjölskyldu minnar í Eyjum, aldraðan föður, dóttur, barnabarn og bræður og leit við í kirkjugarðinum. Það er algjörlega með ólíkindum að fv. þingmaður skuli ásaka mig um að standa ekki mína pligt en ég er þekktur af öðru en slugsi í vinnutímanum. Hjá mér er þingmannsstarfið vinna allan sólahringinn, alla daga.“