Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hlýtur að velta því fyrir sér í fullri alvöru hvort hann getur boðið flokknum og kjósendum almennt upp á það að ganga til kosninga í október sem leiðtogi Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni hefur gert lítið úr þeirri staðreynd að hann er tengdur við Tortólamálin og Panamaskjölin. Þolinmæði kjósenda er á þrotum gagnvart því siðleysi sem hefur viðgengist í þjóðfélaginu með þessari taumlausu notkun á aflandsfélögum og skattaskjólum. Fólki er nóg boðið og sættir sig ekki lengur við feluleik og svik af þessu tagi. Kjörnir fulltrúar hafa neyðst til að segja af sér. Fyrst Sigmundur Davíð fyrrverandi forsætisráðherra, þá Júlíus Vífill Ingvarsson borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, síðan framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins og loks Vilhjálmur Þorsteinsson fyrrverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar og viðskiptafélagi föður Sigmundar Davíðs. Eftir hverju er Bjarni Benediktsson að bíða?
Íslendingar virðast hafa gengið harðar fram en aðrar þjóðir í viðleitni sinni til að fela tekjur og eignir í skattaparadísum. Kjósendur hafa lítið um það að segja ef menn í viðskiptum hafa gert þetta. En þegar kemur að stjórnmálamönnum, kjörnum trúnaðarmönnum fólksins, þá eru gerðar allt aðrar kröfur. Eins er algerlega óviðunandi að eigendur fjölmiðla hafi óhreint mjöl í pokum sínum því þeir ráða svo miklu um skoðanamyndun í landinu. Kröfur til þeirra ættu að vera svipaðar þeim kröfum sem gerðar eru til stjórnmálamanna.
Þeir sem eru nafngreindir í Panamaskjölunum hafa flestir reynt að verja sig með því að þeir hafi ekkert vitað, nema það helst að þeir hafi skilað sköttum af tekjum sínum. Það virðast flestir muna veleftir því þó þeir muni lítið annað! Þá haf menn hártogað um að allt hafi þetta verið löglegt. Væntanlega þá löglegt en siðlaust.
Við hljótum samt að spyrja hvers vegna í ósköpunum fólk er að flýja með eignir sínar og tekjur í skattaskjól ef ekkert er að fela. Ber ekki nafnið “skattaskjól” það með sér að verið sé að skýla sér fyrir skattlagningu. Ef allt er á hreinu þarf þá nokkuð að hafa fyrir því að þvælast með eignir og tekjur yfir hálfan hnöttinn til að geyma þær í skattaparadísum þegar unnt er að hafa þær í námunda við sig heima fyrir?
Bjarni Benediktsson er ráðherra fjármála og þar með einnig skattamála. Ef einhver þarf að vera gjörsamlega hafinn yfir alla gagnrýni þegar kemur af málum af þessu tagi þá er það fjármála-og skattamálaráðherra. Það er Bjarni alls ekki. Það er alveg nóg að hann hafi verið með reikninga í skattaskjólum og að hans nánasta fólk sé þar einnig til þess að hann ætti að sjá sóma sinn í að víkja. Skattamálaráðherra með kámuga fortíð í skattamálum er eitthvað sem kjósendur geta ekki látið bjóða sér upp á. Það er siðlaust og ekki boðlegt.
Ekki er nóg með að Tortólamálin hvíli sem skuggi yfir Bjarna Benediktssyni. Stundin rifjaði upp fyrr í þessum mánuði afskriftir sem tengdar eru Bjarna Benediktssyni og föður hans, Benedikt Sveinssyni. Það er ljótur listi og vekur furðu að maður með slíkan feril skuli sækjast eftir stöðu í stjórnmálum. Lítum á upprifjun Stundarinnar þar sem í fyrirsögn kemur fram að 120 milljarðar króna hafi verið afskrifaðir vegna þeirra:
“BNT. Móðurfélag olíufélagsins N1. Benedikt hluthafi, Bjarni stjórnarformaður. 4,3 milljarða kröfur í þrotabúið – engar eignir.
Umtak fasteignafélag N1. Kröfuhafi félagsins, Arion banki, færði niður rúmlega 20 milljarða skuldir árið 2011.
Fjárfestingarfélagið Máttur. Benedikt hluthafi. Bjarni stjórnarmaður. 21 milljarðs króna kröfur færðar niður eftir gjaldþrot 2010.
IAG Holding (áður Naust). Benedikt hluthafi. Bjarni stjórnarmaður. 3,5 milljarða króna kröfur færðar niður eftir gjaldþrot árið 2009.
Földungur (áður Vafningur). Benedikt hluthafi í gegnum BNT og Mátt. Bjarni Stjórnarmaður í Mætti og þátttakandi í viðskiptum Vafnings árið 2008. Yfirtekið af skilanefnd Glitnis. Skuldar 48 milljarða króna og á litlar eignir.
Þáttur International. Hluthafi í Glitni fram að hruni. Benedikt hluthafi í gegnum Mátt og BNT. Bjarni stjórnarmaður í Mætti og þátttakandi í viðskiptum Þáttar International 2008. Gjaldþrota. 24 milljarða kröfur færðar niður eftir gjaldþrot.”
Hverjir töpuðu á þessum umsvifum þeirra feðga? Hverjir töpuðu peningum á glæfralegum gjörningum Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og félaga hans? Jú, það voru margvíslegir kröfuhafar sem sátu eftir með sárt ennið. Þar á meðal ekki síst lífeyrissjóðir sem eru í eigu fólksins í landinu, kjósenda.
Kjósendur þurfa að gera sér ljóst að formaður Sjálfstæðisflokksins hefur skaðað þá fjárhagslega og rýrt eftirlaunasparnað þeirra með glæfralegum gjörningum fyrir hrun eins og rakið er í Stundinni sem hér var vitnað til.
Það er furðulegt að þetta skuli ekki fá meiri umfjöllun fjölmiðla. Er það vísvitandi þöggun eða hafa þessar alvarlegu staðreyndir bara farið fram hjá þeim?
Allar þessar staðreyndir liggja fyrir og þeim verður haldið til haga. Um það hlýtur Bjarni Benediktsson að hugsa þessar vikur meðan hann veltir því fyrir sér hvort hann ætlar að sækjast eftir áframhaldandi ábyrgðarhlutverki í stjórnmálum Íslands.
Kjósendur munu vega og meta glæfralega gjörninga og vafninga Bjarna Benediktssonar áður en þeir greiða atkvæði. Kjósendur hafa síðasta orðið.