Það styttist í skúbb aldarinnar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mun koma þar við sögu. Spilltir stjórnmálamenn verða afhjúpaðir eftir skamma stund í sameiginlegri birtingu nokkra stórra fjölmiðla víða um heim á umfangsmesta gagnaleka veraldar. Hundruð blaðamanna, 11 milljónir lekaskjala.
Og þú ert þarna, Sigmundur Davíð. Sennilega ertu eini forsætisráðherra þjóðríkis sem geymir fé í skattaskjóli og það á þeim tímum sem við höfum upplifað hér. Með þig beggja megin borðsins. Að ekki séu rifjuð upp ummæli þín margs konar, lýruspilið, flautuleikurinn, þér tókst svo sannarlega að fífla kjósendur en nú er komið að vegamótum.
Sigmundur Davíð. Þú ert ekki lengur forsætisráðherrann minn. Þú varst það einu sinni, ég gaf þér góðan séns í upphafi stjórnartíðar þinnar en áhyggjuhrukkur komu á enni okkar margra þegar þitt fyrsta verk var að lækka veiðigjöldin. Lágu kosningaloforðin þar? Spurðu margir. Hver kom þér til valda, almenningur eða auðmennirnir? Nú þarftu að þola slíkar spurningar. Ég tel mig mæla fyrir hönd margra þegar ég spyr þig, Sigmundur Davíð, þennan annars fagra sunnudag hvort þú hafir notað okkur landsmenn eins og Nike-skóinn þinn forðum. Með því að traðka á því sem fyrir fætinum verður?
Vitaskuld eru besti drengur, ágæti Sigmundur Davíð, fólk er að jafnaði gott. En ég get ekki séð annað en að þeir sem hafi ritað undir áskorun og sagt þér upp störfum beri hag þjóðarinnar meira fyrir brjósti en þú sjálfur. Sennilega vegna þess að þér hefur aldrei orðið ljóst í hverju hagsmunir almennings felast. Til þess hefurðu of þrönga lífssýn og reynslu.
Það hefur nú orðið fullkomið samningsrof milli þín og íslensku þjóðarinnar. Þér mun aldrei takast að sýna fram á að fé sem átti að renna í okkar almannasjóði hafi ekki gildnað undir þínum eigin feita kodda. Og hagsmunaráreksturinn er 100% staðreynd, hvort sem svo var eða ekki.
Vonandi muntu tilkynna afsögn þína Forseta Íslands fyrir hádegi á morgun. Þú ert forsætisráðherra þjóðar sem geymir fé í skattaskjóli á Tortólu, þú ert æðsti leiðtogi okkar á sama tíma og þú ert hættur að tala við fulltrúa almannaútvarpsins í landinu okkar. Þú er kominn svo svakalega út í horn að engir aðrir en þeir sem hafa hagsmuni af því að sjá þig áfram á valdastóli geta stutt þig áfram til pólitískra starfa.
En þú ert ekki á flæðiskeri og staddur og ég er viss um að ýmsir hæfileikar þínir munu koma þér að góðum notum í öðrum störfum síðar. En pólitík verður ekki eitt af því. Ég mun a.m.k. neita því frá og með deginum í dag að þú sért forsætisráðherrann minn.
Með kærri kveðju
Björn Þorláksson