Forystumenn VG og áður Alþýðubandalagsins hafa í gegnum tíðina bent á að tölur um samneyslu segðu meir en flest annað um straumfallið í pólitíkinni. Þeir hafa talið sig höfuðandstæðinga þeirra sem vilja mæla hagsældina eftir straumþunganum í farvegi einkaneyslunnar.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur birti fjármálaáætlun sína fyrir næstu fimm ár um liðna helgi. Fyrr í þessum mánuði birti Hagstofan einnig tölur um hagvöxt og ríkisfjármál. Öll þessi gögn sýna vel hvernig pólitískur veruleiki endurspeglar pólitíska hugmyndafræði.
Tölur Hagstofunnar um hagvöxt á síðasta ári sýna 4,6% aukningu. Það er góður árangur. Um það geta menn varla þrætt.
Samhliða birti Hagstofan upplýsingar um að á síðasta ári jókst einkaneyslan um 4,8%. Það þýðir að neysla heimilanna hefur aukist meir en hagvöxturinn. Í flestra augum er það fagnaðarefni.
En eigi að síður eru tvær hliðar á þeim peningi. Hin hliðin sýnir að aðrir þættir í þjóðarbúskapnum hafa skroppið saman sem hlutfall af landsframleiðslu.
Vöxtur samneyslunnar á fjörutíu ára meðaltali Sjálfstæðisflokksins
Athyglisvert er í því sambandi að horfa á samneysluna. Hún mælir jú þjónustu opinberra aðila við almenning í landinu, menntun, heilbrigðisþjónustu, löggæslu og svo framvegis. Hagstofan segir að samneyslan hafi aukist um 3,3% á síðsta ári þegar vöxtur þjóðarbúsins í heild var 4,6%.
Hvaða pólitísku merkingu hafa þessi 3,3%? Þegar horft er á árlegan meðaltalsvöxt samneyslu síðustu fjóra áratugi eða svo segir Hagstofan að þessi tala sýni að á fyrra ári vorum við nokkurn veginn við þetta langtíma meðaltal.
Er það ekki harla gott og pólitískt ásættanlegt? Eða horfir það mismunandi við eftir því frá hvaða sjónarhorni er litið?
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við völd mestan hluta þessa tíma. Séð frá hlaðvarpanum í Valhöll sýna þessar nýju upplýsingar um árlegan vöxt samneyslu að flokkurinn siglir í nýrri ríkisstjórn undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur eftir nákvæmlega sama striki og síðustu fjörutíu ár. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins geta því mjög vel við unað.
Er samhengi milli ánægju þingmanna VG og trúverðugleika þeirra?
Meginþunginn í gagnrýni VG sem stjórnarandstöðuflokks, og Alþýðubandalagsins þar áður, hefur í gegnum tíðina beinst að því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi jafnan forgangsraðað einkaneyslu fram fyrir samneyslu.
Þegar horft er á nýju samneyslutölu Hagstofunnar frá bæjarhellu VG ætti hún því í sögulegu ljósi að gefa tilefni til að lýsa nokkrum áhyggjum eða jafnvel vera efni í harða gagnrýni. En nú bregður svo við að þvert á móti lýsa þingmenn VG, allir sem einn, yfir mikill ánægju. Þeir telja það til meiriháttar árangurs að vera á meðaltali Sjálfstæðisflokksins.
Á móti gætu einhverjir haldið því fram að sú mikla ánægja og það stolt sem ríkir í röðum þingmanna VG með þessa samstöðu geri í raun lítið úr málflutningi, kröfum, stefnu og reyndar helsta tilgangi flokksins frá upphafi. Með öðrum orðum að þetta sé spurning um trúverðugleika.
Komi slík sjónarmið upp innan flokksins eða í röðum kjósenda hans geta þingmennirnir gripið til þess þekkta andsvars að ekki megi dæma árangurinn af stjórnarsamstarfinu á fyrsta ári.
Stefnt að því að samneyslan minnki lítillega á kjörtímabilinu
Vandinn við það andsvar er sá að nú liggja fyrir tvær fjármálaáætlanir þessarar ríkisstjórnar. Sú fyrri, sem gilti til 2023, gerði ráð fyrir því að samneysla ríkissjóðs sem hlutfall af þjóðarframleiðslu lækkaði um 0,1%. Nýja áætlunin, sem gildir til 2024, er róttækari því þar er gert ráð fyrir að samneysla ríkisins minnki úr 11,3% í 10.9% fyrir lok kjörtímabilsins. Það telst ekki kúvending en er vísbending um áherslubreytingu niður á við.
Ríkisstjórnin reiknar sem sagt með því að stefna hennar leiði til þess að samneysla í hlutfalli við landsframleiðslu verði heldur minni í lok kjörtímabilsins en hún var í tíð Benedikts Jóhannessonar í fjármálaráðuneytinu. En pólitíski kjarni málsins virðist vera sá að þingmenn VG líta ekki lengur svo á það sé hlutverk þeirra í ríkisstjórn að auka samneysluna í hlutfalli við þjóðarframleiðsluna. Þeir eru meira að segja kampagleiðir með að hún lækki. Það er kúvending sem markar pólitísk straumhvörf.
Einnig er athyglisvert að í gögnum Hagstofunnar kemur fram að á síðasta ári námu útgjöld til heilbrigðismála 7,1% af landsframleiðslu. Hagstofan segir að það sé nær óbreytt hlutfall frá fyrra ári. Ánægja þingmanna VG með að hafa haldið nær sama útgjaldahlutfall til heilbrigðismála og Óttar Proppé sýnist líka vera óblandin og fölskvalaus.
Einkaneyslan sett í pólitískan forgang
Til viðbótar má svo nefna áhrif aðgerða ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir kjarasamningum. Minni hluti þeirra gríðarlegu fjármuna fer í samneyslu. Stærsti hlutinn er tilfærsla frá samneyslu til einkaneyslu með lækkun skatta á alla en þó hlutfallslega mest á þá tekjulægstu.
Þetta er eins konar styrkur til fyrirtækjanna sem greiddur er með samneyslupeningum. Með öðrum orðum: Í pólitísku forgangsröðuninni er einkaneyslan sett fram fyrir samneysluna. Hér hefur VG einfaldlega fallist á forgangsröðun Sjálfstæðisflokksins. Þingmenn VG hafa ekki einu sinni lagt áherslu á að fara bil beggja.
Nýjasta útspilið í þessu eru þau áform ríkisstjórnarinnar að láta sveitarfélögin draga saman samneysluseglin til að borga að hluta einkaneysluloforð ríkisstjórnarinnar.
Aftur á móti ætti gagnkvæm ánægja þingmanna stjórnarflokkanna með hlutföllin milli einkaneyslu og samneyslu samkvæmt öllum hefðbundnum lögmálum að styrkja stjórnarsamstarfið.
Skoðanakannanir líklegri til að valda spennu í stjórnarsamstarfinu en hugmyndafræðin
Pólitísk málamiðlun kunna menn að segja. Jú, málamiðlanir eru nauðsynlegar. Við því var aldrei að búast að VG fengi að fullu inn í stjórnarsáttmála kosningaloforðin um skattahækkanir upp á tugi milljarða til að auka samneysluna.
En fáir hefðu fyrirfram trúað því að Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti ekki að gefa svo sem eins og eitt hænufet eftir í þessu efni til að ná sátt um samneyslustigið; ekki aðeins út þetta kjörtímabil heldur langleiðina út það næsta líka.
Niðurstaðan af þessari rýni í hagtölur er sú að skoðanakannanir séu líklegri til að valda spennu í stjórnarsamstarfinu en ólík hugmyndafræði stjórnarþingmanna.