Formaður Sjálfstæðisflokksins vorkennir Sigríði Andersen sem hefur klúðrar pólitískum ferli sínum og leyfir henni að verða formaður utanríkismálanefndar í stað Áslaugar Örnu. Með þessari ákvörðun sýnir Bjarni Benediktsson furðulegt dómgreindarleysi. Sigríður Andersen er búin sem stjórnmálamaður eftir að hún braut lög og hlaut dóma hér heima fyrir valdníðslu í embætti. Auk þess dæmdi Mannréttindadómstóll Evrópu hana seka. Stjórnmálamaður sem hefur orðið fyrir þessu á engan möguleika á að rísa upp og njóta stuðnings. Sjálfstæðisflokkurinn sýnir stuðningsmönnum sínum og kjósendum almennt hroka og dónaskap með því að flagga dæmdum þingmanni í mikilvægt embætti eins og formennska í utanríkismálanefnd er. Kjósendur eru ekki fífl eins og sumir virðast halda. Þeir kunna að svara fyrir sig og munu gera það þegar rétti tíminn kemur. Sjálfstæðisflokkurinn mun enn tapa fylgi á þessari vanhugsuðu ákvörðun. Það er svo sem fallegt að vorkenna þeim föllnu. En í stjórnmálum skilað það engu – nema fylgistapi.
Í skrifum sem vakið hafa mikla athygli síðustu daga segir Ragnar Önundarson, fyrrverandi bankastjóri, að Sjálfstæðisflokkurinn sé alltaf í vandræðum með kvennamálin sín. Hann gerir lítið úr reynslu varaformanns og ritara flokksins og telur að þær séu „puntudúkkur“ frekar en leiðtogar. Hér verður ekki tekin afstaða til þessara viðhorfa Ragnars. En hitt er rétt að flokknum hefur haldist afar illa á frambærilegum konum til að gegna þingstörfum og setu í ríkisstjórn. Lítum á nokkur dæmi:
Það var auðvitað mikil ógæfa að Ólöf Nordal skyldi missa heilsuna og falla frá. Hanna Birna Kristjánsdóttir ætlaði alla leið á toppinn, varð varaformaður flokksins og ráðherra. En hún klúðraði pólitískum ferli sínum með svonefndu lekamáli og hrökklaðist frá völdum. Ragnheiður Elín Árnadóttir fékk mikil tækifæri innan Sjálfstæðisflokksins, leiddi lista flokksins í Suðurkjördæmi, fékk ráðherraembætti en var svo hafnað algerlega í prófkjöri og felld af stalli þegar Samfylkingarmaðurinn Páll Magnússon gekk skyndilega í Sjálfstæðisflokkinn og vann efsta sætið í Suðurkjördæmi. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Hanna Katrín Friðrikssen undu sér ekki í Sjálfstæðisflokknum, sögðu skilið við hann, stofnuðu Viðreisn og voru kjörnar á Alþingi. Öllum er kunn hrakfallasaga Sigríðar Andersen sem var gerð að dómsmálaráðherra, braut lög, hlaut dóma og var sett út úr ríkisstjórninni.
Fleiri konur mætti nefna sem ýmisst hafa fallið í prófkjörum, gefist upp eða verið hafnað með einum eða öðrum hætti innan Sjálfstæðisflokksins eftir að hafa setið á Alþingi eða verið í borgarstjórn Reykjavíkur: Unnur Brá Konráðsdóttir, Ásta Möller, Katrín Fjeldsted, Arnbjörg Sveinsdóttir, Drífa Hjartardóttir, Elín Hirst, Hildur Sverrisdóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Áslaug Friðriksdóttir. Engin þeirra var tilbúin að ljúka pólitískum ferli sínum þegar stuggað var við þeim. Allar höfðu þær eitthvað gott fram að færa þó flokkurinn vildi ekki gefa þeim áframhaldandi tækifæri.
Því verður ekki neitað að Sjálfstæðisflokkurinn er klaufalegur í kvennamálum.