„Þú ert alger aumingi, þú ert ljót/ur, feit/ur, þú ert ómöguleg/ur, þér mun mistakast, aðrir eru að dæma þig, þú ert að segja eitthvað vitlaust, gera eitthvað vitlaust, hvað er að þér, geturðu aldrei gert neitt rétt, þú ert vonlaus … Kannast þú við svona hugsanir?“ skrifar Sara Pálsdóttir í Fréttablaðinu í dag.
Sara var velmegandi lögmaður og allt gekk í haginn hjá henni á veraldlega sviðinu en hún sökk síðan í djúpt sjálfshatur og undirlögð sjúkdómum og verkjum.
„Í mörg ár beitti ég sjálfa mig grimmilegu andlegu ofbeldi með neikvæðu sjálfsniðurrifi og sjálfsásökun. Ég gerði mér enga grein fyrir því hversu skaðlegt og vont þetta ofbeldi var sem ég beitti sjálfa mig, daglega.
Ég var líka rosalega veik. Glímdi við fíknisjúkdóm. Sjálfshatrið og fyrirlitningin gerði það að verkum að það var óbærilegt að vera ég. Þar af leiðandi flúði ég sjálfa mig og leitaði í breytt ástand. Ég glímdi líka við alvarlegan kvíða, ofsakvíða, síþreytu, vöðvabólgu og króníska verki,“ skrifar Sara.
„Ég var orðin mjög örvæntingarfull. Krónísku verkirnir gerðu það að verkum að ég átti orðið mjög erfitt með að klára heilan vinnudag. Kl. 12 á hádegi þurfti ég að leggjast niður og hvíla mig, ég var svo þreytt og verkjuð. Ég var ekki orðin þrítug.
Ég óttaðist að verða öryrki. Að geta ekki framfleytt mér og mínum. Ég lifði í stöðugum ótta um að eitthvað hræðilegt væri að fara að gerast. Stundum vaknaði ég upp á næturnar með ofsakvíða. Þvílíkur viðbjóður,“ skrifar Sara.
En svo breyttist allt.
„Í dag hef ég öðlast frelsi frá þessu öllu. Með því að öðlast heilbrigt samband við sjálfa mig og læra að stýra hugsunum mínum og líðan minni, hef ég öðlast heilbrigt og stórkostlegt líf.
Ég er aldrei verkjuð, frjáls frá kvíða, ég elska mig skilyrðislaust og hef skipt út neikvæða sjálfsniðurrifinu fyrir jákvæða sjálfsuppbyggingu, kærleika og sjálfsmildi. Ég er orkumikil, glöð og þakklát alla daga. Þegar ég er búin í vinnunni á ég meira en næga orku eftir til að sinna börnunum, heimilisverkum, fara út með hundinn. Ég hef yfirgefið starf mitt sem lögmaður og helgað starf mitt því að hjálpa öðrum að fá frelsi frá kvíða og öðrum neikvæðum einkennum. Í hverri viku sé ég skjólstæðinga mína sigra kvíða, þunglyndi, þreytu og aðra vanlíðan. Lykilskref í það frelsi er að hætta að beita sjálfan sig andlegu ofbeldi og fara þess í stað að elska sig skilyrðislaust og stunda jákvæða sjálfsuppbyggingu,“ skrifar hún.
Sara var nýlega gestur Ásdísar Olsen í þættinum Undir yfirborðið þar sem hún fjallar um leiðina til frelsis og hvernig við getum elskað okkur og hætt að brjóta okkur niður.
Í þættinum er farið með áhorfendur í leidda hugleiðslu eða dáleiðslu til að hjálpa fólki að stíga þetta skref.
Þátturinn er aðgengilegur hér að neðan.
„Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér þetta betur er ég með fyrirlestra og hugleiðslu til að hjálpa þér að hætta neikvæðu sjálfsniðurrifi inni í Facebook-grúppunni minni Frelsi frá kvíða,“ skrifar Sara.