Sjöfn Þórðardóttir fær að venju til sín góða gesti í þáttinn Fasteignir og heimili í kvöld. Að þessu sinni heimsækir Sjöfn, Albert Eiríksson matarbloggara og sælkera með meiru og Eik Gísladóttur lífskúnstner.
Heimboð í Sólskinstertu sem boðar komu sumarsins
Albert Eiríksson matarbloggari og fagurkeri með meiru býður Sjöfn heim á Lindargötuna í tilefni komu sumarsins og býður upp á Sólskinstertu sem er bara bökuð einu sinni ári. Hefð hefur verið í fjölskyldu Alberts í áranna rás að baka Sólskinstertuna á sumardaginn fyrsta og mikil tilhlökkun er á meðal heimilisfólksins að fá að gæða sér á þessari guðdómlegu tertu, með löðrandi ljúffengu karamellu kremi. Albert og Sjöfn ræða um mikilvægi þess að halda í góðar hefðir og siði og ekki síst að búa til nýja siði fyrir yngri kynslóðina.
Sána í garðinum eykur lífsgæðin
Sjöfn heimsækir Eik Gísladóttur lífskúnstner sem hefur mikinn áhuga á að hugsa vel um líkama og sál. Eitt af því sem Eik hefur gert til að hugsa enn betur um heilsuna er að fá sér sána-tunnu í bakgarðinn sem hægt er að nota allan ársins hring. Eik segir að hún finni mun á líðan og heilsu við notkun á sána-tunnunni og bestu gæðastundir fjölskyldunnar séu í tunnunni. Þau viti fátt betra en að slaka í sána við dagslok. Sjöfn fékk að kíkja í sána-tunnuna til Eikar og kynnti sér kosti þess að vera með sána heima í garðinum sér til heilsubótar og vellíðunar.
Þátturinn Fasteignir og heimili er á dagskrá öll mánudagskvöld kl. 20:30 á Hringbraut - og jafnan ferskur, fjölbreyttur og með persónulegum blæ.