Páll Magnússon birtir í dag beinskeytta grein í Fréttablaðinu þar sem krafist er afsagnar Illuga Gunnarssonar. Páll dregur ekkert undan og hlýtur þessi grein að teljast vera sú harðorðasta sem enn hefur birst um Illugamálið.
Í grein sinni vekur Páll máls á nokkrum áhugaverðum þáttum sem ekki hafa áður ratað inn í umræðuna um fjármálasukk ráðherrans.
Páll vekur athygli á því að ýmsir af helstu álitsgjöfum fjölmiðlanna og bloggheimsins hafa lítið sem ekkert sagt um mál Illuga þó nú sé liðið hálft ár síðan það kom upp en allan þann tíma hefur Illugi verið á flótta undan fjölmiðlum og neitað að ræða við þá um fjármálatengsl sín við Orka Energy. Páll talar þarna um “sískrifandi” einstaklinga sem eru hvað fyrirferðarmestir í þjóðfélagsumræðunni á vettvangi dagblaða og netmiðla. Páll nafngreinir þá ekki en fróðlegt er að velta fyrir sér nöfnum þeirra sem hann er væntanlega að beina spjótum sínum að, eða gæti með réttu verið að vísa til:
Egill Helgason er einn afkastamesti pistlahöfundur landsins og lætur sér fátt mannlegt óviðkomandi. Hann hefur ekki haft mikið um spillingarmál Illuga að segja. Sama gildir um skáldin Guðmund Andra Thorsson og Hallgrím Helgason sem eru vanir að skafa ekki utan af gagnrýni sinni. Þá hefur lítið farið fyrir umfjöllun um málið á síðum Morgunblaðsins. Náttfari minnist þess ekki að Staksteinar hafi fjallað um það og ekkert hefur hann séð um málið í Reykjavíkurbréfum. Styrmir Gunnarsson skrifar vikulega greinar sem birtast í Morgunblaðinu og einnig heldur hann úti vefsíðu. Ekki hefur hann séð ástæðu til að hneykslast á fjármálasukki Illuga þó hann sé jafnan býsna dómharður um menn og málefni. Þá er Hannes Hólmsteinn oft með opinn munninn af ýmsum ástæðum án þess að hann hafi séð ástæðu til að yfirfara framkomu menntamálaráðherrans. Sama gildir um Jón Steinar Gunnlaugsson, háyfirdómara, sem yfirleitt tekur að sér að kveða upp dóma í jafnvel ólíklegustu málum. Páll segir í grein sinni að ýmsir þeirra sem velja þögnina líti á Illuga sem “einn af okkur” og því beri að fara um hann mjúkum höndum.
Það sem er samt einna merkilegast er sú staðreynd að pólitískir andstæðingar Illuga hafa að mestu látið hann í friði út af fjármálasukkinu. Margir þingmenn eru mjög duglegir að segja skoðanir sínar og birta greinar í blöðum og vefmiðlum. Dæmi um það eru Ögmundur Jónasson, Sigríður Andersen, Brynjar Níelsson og Katrín Jakobsdóttir. Ekkert þeirra hefur munað eftir Illugamálinu eða talið það nógu merkilegt til að gera það að umtalsefni í þinginu eða á vettvangi fjölmiðla. Píratar hafa aðeins vikið að þessu en málið liggur að mestu í þagnargildi hjá þinginu. Hvers vegna? Jú, þar kemur til samtrygging sukksins. Þingmenn hlífa hver öðrum því þeir vita aldrei hvenær þeir lenda næst í vondum málum sjálfir. Og þá er gott að “eiga inni” hjá pólitískum andstæðingum með sama hætti og þingmenn og ráðherrar skipa hver annan í stöður sendiherra þegar á þarfa að halda, eins og dæmin sýna.
Vaxandi þrýstingur er á að Illugi Gunnarsson fari. Eftir hverju bíður Umboðsmaður Alþingis? Hve lengi ætlar forysta Sjálfstæðisflokksins að una við það að hafa hann eins og lík í lestinni? Ætlar Bjarni Benediktsson að halda áfram að bera ábyrgð á þessu hneyksli? Munu 1.200 landsfundarfulltrúar láta þetta ástand óátalið á þeim landsfundi sem hefst eftir hálfan mánuð? Verður þöggun og meðvirkni einnig ráðandi þar?