Ekki kemur á óvart að Halldór Benjamín Þorbergsson hverfi nú frá Samtökum atvinnulífsins í stöðu á öðrum vettvangi. Hann hefur verið ráðinn til Regins, fasteignafélags.
Eftir svonefnda „lífskjarasamninga“ árið 2019 hefur smám saman magnast mikil óánægja í atvinnulífinu með forystu Samtaka atvinnulífsins vegna þeirra samninga sem hafa reynst lúmskir og afar erfiðir fyrirtækjum í landinu. Þetta hefur komið æ betur í ljós og valdið sífellt meiri vonbrigðum.
Fyrst beindist gagnrýnin að aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, Ásdísi Kristjánsdóttur, sem talin var hafa verið helsti reiknimeistari samtakanna í þeim samningum. Þegar fyrirtækin í landinu þurftu svo að fara að standa skil á þeim samningum, sem gerðir voru, vandaðist málið. Stytting vinnuviku og lenging orlofs samfara miklum taxtahækkunum komu illa við margar atvinnugreinar, einkum í verslun, þjónustu og í iðnaði. Þá var farið að leita sökudólga og athyglin beindist fljótt að Ásdísi.
Hún gerði sér ljóst að henni yrði ekki vært hjá Samtökum atvinnulífsins og var fljót að átta sig. Ásdís sagði starfi sínu lausu, hellti sér í prófkjörsbaráttu hjá Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi, þar sem hún hafði ekkert komið við sögu áður. Engu að síður náði hún fyrsta sæti og er nú orðin bæjarstjóri í Kópavogi. Óneitanlega glæsilegur flótti!
Forsvarsmenn atvinnulífsins voru samt ekki sáttir. Vitanlega bar framkvæmdastjóri samtakanna einnig ábyrgð. Þegar tölur birtust svo um að launavísitala á árinu 2022 hefði hækkað um meira en 12 prósent á sama tíma og blikur voru á lofti í samfélaginu var áfram spurt hverjir bæru ábyrgð á þessum gölnu kjarasamningum. Böndin bárust að Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóra samtakanna. Ljóst var að honum yrði vart vært þar áfram.
Samtök atvinnulífsins gæta þess ávallt að framkvæmdastjórar þeirra hverfi af vettvangi „með reisn“ eins og tiðkast hefur. Þegar Ari Edwald hætti þá fór hann til 365 miðla í forstjórastöðu, Vilhjálmur Egilsson varð rektor á Bifröst, Þorsteinn Víglundsson steig út og varð ráðherra og nú var komið að Halldóri Benjamín. Þegar losnaði forstjórastaða hjá fasteignafélaginu Regin hvarf hann þangað.
Samtök atvinnulæifsins hafa því lokið við hreinsanir sínar eftir einhverja dýrustu kjarasamninga sögunnar sem hann og Ásdís báru ábyrgð á árið 2019.
Hvað tekur svo við? Víst er að fyrir valinu verður einhver innvígður og innmúraður flokksmaður enda hafa Samtök atvinnulifsins verið að þróast hin síðari ár yfir í eins konar deild í Sjálfstæðisflokknum. Spennandi verður að sjá hvað kemur upp. Þarf ekki að koma einhverjum mætum flokksgæðingi fyrir í vel launuðu starfi?
- Ólafur Arnarson.