Vísir hefur birt stóra skoðanakönnun Maskínu. Hún sýnir að allir þrír stjórnarflokkarnir myndu tapa þingmönnum ef niðurstaða könnunarinnar gengi eftir. Viðreisn fengi átta þingmenn kjörna en hefur fjóra núna. Þingflokkarnir yrðu níu þar sem Sósíalistaflokkurinn kæmi inn mönnum og þar með myndi fjölga um einn flokk á þinginu.
Samkvæmt þessari könnun fengju ríkisstjórnarflokkarnir samtals 30 þingmenn og þar með væri stjórnin fallin eins og flestar kannanir hafa sýnt í langan tíma.
Sjálfstæðisflokkur fengi 21,3 prósent fylgi og 14 þingmenn kjörna, tapaði tveimur mönnum frá síðustu kosningum þegar fylgi flokksins var 25,3 prósent.
Vinstri grænir næðu 14,4 prósent fylgi og fengju 9 þingmenn kjörna, tapaði tveimur mönnum frá síðustu kosningum þegar fylgi flokksins var 16,9 prósent.
Samfylkingin næði 12,5 prósent fylgi og fengi 8 þingmenn kjörna, bætti einum við sig frá síðustu kosningum þegar fylgi flokksins var 12,1 prósent.
Viðreisn fengi 12,5 prósent fylgi og 8 menn kjörna, bætti við sig fjórum þingmönnum frá síðustu kosningum þegar fylgi flokksins var 6,7 prósent.
Framsóknarflokkurinn fengi 11,2 prósent fylgi og 7 þingmenn kjörna, tapaði einum frá síðustu kosningum þegar fylgi flokksins var 10,7 prósent. Vert er að hafa í huga að vegna misvægis atkvæða gæti flokkurinn náð átta þingmönnum í stað sjö út á þetta fylgi nema Framsókn styrki sig verulega á höfuðborgarsvæðinu.
Píratar næðu 10,9 prósent fylgi og fengju 7 menn kjörna en fylgi þeirra var 9,2 prósent í síðustu kosningum en þá fengu þeir sex menn kjörna.
Miðflokkurinn mælist nú með 6,8 prósent fylgi og fengi fjóra menn kjörna. Í síðustu kosningum fékk flokkurinn 10,9 prósent atkvæða og sjö menn kjörna.
Flokkur fólksins fengi 5 prósent og þrjá menn kjörna eins og Sósíalistaflokkurinn sem mælist með 5,5 prósent fylgi.
Yrði þetta niðurstaða kosninganna, þyrfti að mynda fjögurra flokka stjórn hið minnsta. Hálfgerð ringulreið gæti skapast á þingi við að koma saman starfhæfri ríkisstjórn.
Níu þingflokkar og dreift fylgi gerði það að verkum að mynda þyrfti hálfgerða þjóðstjórn þó það sé ekki einfalt heldur, meðal annars vegna þess að Samfylkingin hefur marglýst því yfir að ekki komi til greina að vinna með Sjálfstæðisflokki eða Miðflokki. Þá virðist ekki vera flötur á samstarfi Framsóknar og Miðflokks vegna gagnkvæmrar óvildar milli núverandi formanna flokkanna.
Út frá þessu væri tæknilega mögulegt að mynda fjögurra flokka stjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar, Framsóknar og Vinstri grænna sem hefði 38 þingmenn á bak við sig.
Mörgum myndi hugnast þetta stjórnarmynstur illa en þessi leið er fær í ljósi þess að enginn þessara flokka hefur lýst því yfir að þeir vilji alls ekki vinna hver með öðrum eins og Samfylkingin hefur gert og þannig málað sig með vissum hætti út í horn þegar kemur að stjórnarmyndunarviðræðum sem gætu orðið mjög snúnar ef könnun Maskínu yrði að veruleika.
Margt mun breytast á þeim fjórum mánuðum sem enn eru til kosninga. Ekki þarf miklar tilfærslur til að núverandi ríkisstjórn haldi velli og eins myndi heildarmyndin breytast mikið ef Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn lentu neðan við fimm prósenta lágmarkið sem þarf að ná til að koma fulltrúum á þing.