Samherjamálið er hrikalegt áfall fyrir allan sjávarútveginn og sjálfstæðisflokkinn

Ef marka má mikinn fréttaflutning og fram komin gögn vegna umdeildrar starfsemi Samherja í Namibíu, þá er viðbúið að málið muni hafa víðtæk áhrif að því gefnu að upplýsingarnar eigi við rök að styðjast.

 

Verði fram komnar upplýsingar staðfestar þá er þetta gífurlegt áfall fyrir Samherja sem fyrirtæki, stjórnendur þess og eigendur. Menn eru bornir þungum sökum um alþjóðleg lögbrot sem varða við þungar refsingar. En þetta snýr ekki að stórfyrirtækinu Samherja einu – heldur öllum íslenskum sjávarútvegi og jafnvel fleiri þáttum útflutningsatvinnugreinanna. Spyrja má hvort orðspor Íslands muni skaðast á alþjóðavettvangi? Munu viðskiptakjör þjóðarinnar versna? Verður lánstraust Íslendinga erlendis lakara? Munu útlendingar veigra sér við að kaupa íslenskar afurðir, einkum sjávarafurðir? Mun þetta draga úr farðamannastraumi til Íslands?. Mun þetta mál hafa áhrif á gengi íslensku krónunnar? Þannig mætti áfram telja og spyrja áleitinna spurninga.

 

Einnig verður fróðlegt að sjá hvernig samtök í íslensku atvinnulífi munu bregðast við. Því hefur lengi verið haldið fram að Samherji og forráðamenn félagsins hafi ráðið býsna miklu í þessum samtökum. Þau hafa verið allsráðandi í Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (áður LÍÚ og Samtök fiskvinnslustöðva), og haft mikil áhrif hjá Viðskiptaráði Íslands og Samtökum atvinnulífsins. Að ekki sé talað um Íslandsstofu sem á að sinna kynningarmálum fyrir íslenska útflutningsstarfsemi en þar gegnir Björgólfur Jóhannsson formennsku, en hann er fyrrum stjórnandi hjá Samherja og dótturfélaginu Síldarvinnslunni. Hvað skyldi honum finnast um þetta mál út frá orðspuri Íslands og hagsmunum útflutningsgreinanna?

 

Þá á eftir að ræða um áhrif málsins á íslensk stjórnmál. Nokkrir stjórnmálamenn hafa þegar tjáð sig. Sumir með einkar ósmekklegum hætti og án yfirvegunar. Aðrir virðast bíða átekta. Forsætisráðherra tjáði sig við fjölmiðla um hádegi í dag. Þar var ekki skafið utan af alvöru málsins. Viðbúið er að ríkisstjórnin hafi nú þegar meiri upplýsingar um málið en fram hefur komið í fjölmiðlum. Innan úr Sjálfstæðisflokknum berast þær fréttir að þar á bæ séu menn svefnlitlir af áhyggjum. Öllum eru ljós hin miklu tengsl Samherjaforystunnar við flokkinn. Einkum eru þau tengsl vandræðaleg við Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, sem hefur lækkað veiðileyfagjöldin úr 11 milljörðum í 5 milljarða samkvæmt því fjárlagafrumvarpi sem liggur fyrir Alþingi til afgreiðslu. Innan Sjálfstæðisflokksins eru uppi raddir um að flokkurinn muni tapa miklu fylgi vegna málsins nema Kristján Þór víki úr ríkisstjórninni, alla vega tímabundið á meðan rannsókn fer fram. Á meðan tæki nýr ráðherra við. Margir yrðu þá vafalaust kallaðir en einna líklegast er að Jón Gunnarsson, ritari flokksins, yrði fyrir valinu.

 

Hér er vont mál á ferðinni. Það eina góða sem það gæti haft í för með sér er að veiðileyfagjöld yrðu hækkuð í eðlilegt horf í stað þess að halda áfram að lækka þau.  Viðileyfagjölda þurfa að fara í 12 til 15 milljarða á ári til þess að meiri sátt geti orðið um íslenskan sjávarútveg. Oft var þörf – en nú er nauðsyn!