Í nýrri skoðanakönnun Maskínu um afstöðu kjósenda í Reykjavík kemur sitthvað merkilegt fram. Bæði meirihlutinn í borginni og minnihlutinn fá gagnrýni og talsvert skortir á að kjósendur séu sáttir við störf borgarfulltrúa upp til hópa.
Talsverðar tilfærslur eru á fylgi milli meirihlutaflokkanna sem samtals eru með 54,8 prósenta stuðning sem er aðeins minna en í kosningunum vorið 2022. Fylgi Framsóknarflokksins hrynur úr 18,7 prósentum í 5,1 prósent. Flokkurinn fengi aðeins einn borgarfulltrúa kjörinn miðað við þetta en náði fjórum mönnum í kosningunum. Hinir meirihlutaflokkarnir bæta við sig fylgi og borgarfulltrúum. Samfylkingin fer úr 20,3 prósentum í 27 prósent samkvæmt könnun Maskínu, yrði stærsti flokkurinn í borgarstjórn með 7 menn kjörna. Viðreisn eykur fylgi sitt úr 5,2 prósentum í 8,3 prósent og bætti við sig einum manni, fengi tvo kjörna. Píratar bæta einnig við sig manni og fengju nú fjóra borgarfulltrúa.
Flokkur fólksins tapar sínum borgarfulltrúa, Kolbrúnu Baldursdóttur, enda fer fylgi flokksins niður í 3,2 prósent. Frá kosningunum er fylgi minnihlutaflokkanna Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Miðflokks óbreytt en fylgi Sósíalistaflokks Íslands eykst.
Stóru fréttirnar í þessari könnun eru þær að meirihlutinn í Reykjavíkur heldur með afgerandi hætti þrátt fyrir að borgarbúar gagnrýni störf hans. En þeir gagnrýna störf minnihlutans ekki síður. Þrátt fyrir linnulausar árásir á Dag B. Eggertsson, borgarstjóra, bætir flokkur hans við sig verulegu fylgi frá kosningunum vorið 2022. Samfylkingin er samkvæmt þessari könnun stærstur, fer úr 20,3 prósentum í 27 prósent og fengi 7 borgarfulltrúa kjörna.
Sjálfstæðisflokkurinn stendur í stað og fulltrúi Flokks fólksins fellur út. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, og Kolbrún Baldursdóttir hafa haldið uppi mjög illskeyttri gagnrýni á borgarstjóra sem hefur engu skilað, fremur virkað öfugt. Samkvæmt könnun Maskínu eru viðbrögð kjósenda þau að auka fylgi flokks borgarstjórans, fella Kolbrúnu út úr borgarstjórn og skilja Sjálfstæðisflokkinn eftir í sömu sporum og eftir kosningarnar í fyrra. Engin eftirspurn virðist vera eftir því að þáttur hans í stjórnun borgarinnar verði aukinn. Sjálfstæðismenn og málpípur hans ættu að hugsa sinn gang eftir þessa könnun. Fólk sér í gegnum kjánalegan málflutning fulltrúa flokksins.
Viðreisn, Píratar og Sósíalistaflokkurinn bæta allir við sig – en verulega hefur slegið í bakseglin hjá Framsóknarflokknum.
- Ólafur Arnarson.