Íslenskir stjórnmálaflokkar geta farið að taka undir með skáldinu sem sagði í ljóði sínu að tilvera okkar væri undarlegt ferðalag. Ekki er lengur á vísan að róa. Flokkar eiga ekki fylgið lengur. Fólk fæðist ekki lengur inn í flokka til þess að fylgja þeim að málum út lífið eins og áður tíðkaðist.
Kjósendur eru nú miklu sjálfstæðari en var. Þeir láta ekki segja sér fyrir verkum. Þeir þora að hafa skoðanir og þeir þora að skipta um skoðanir. Fjölmiðlun er gjörbreytt. Aðgangur að upplýsingum er svo mikill að kjósendur geta leitað allra þeirra upplýsinga sem þeir vilja. Það er liðin tíð að fólk sæki sannleikann í Þjóðviljann, Alþýðublaðið, Morgunblaðið eða Tímann eins og var raunin. Menn fá ekki línuna lengur úr flokksblöðum.
Fylgissveiflur geta verið gríðarlegar. Við sjáum merki þess þegar litið er á úrslit nýafstaðinna kosninga. Fjórflokkurinn gamli var yfirleitt með meira en 90% atkvæða en hefur nú einungis 60% fylgi. Viðbúið er að gamlir flokkar muni hverfa af sviðinu og rýma fyrir nýjum framboðum eins og nú er að gerast.
Tími Samfylkingarinnar virðist vera liðinn. Framsókn fékk nú minnsta fylgi sitt frá stofnun. Framsókn gæti verið næsti flokkur á eftir Samfylkingu til að hverfa endanlega af sviði íslenskra stjórnmála. Sjáum til í næstu kosningum hvernig flokknum vegnar þá.
Fylgissveifla Samfylkingar á örfáum árum er ótrúleg. Í kosningunum vorið 2009 hlaut flokkurinn nær 30% atkvæða og náði 20 mönnum inn á þing. Í kosningunum vorið 2013 missti Samfylkingin meira en helming fylgisins, 11 þingmenn og fór niður í 9 þingmenn. Nú var fylgið einungis 5,7% þannig að litlu mátti muna að Samfylking færi niður fyrir 5% mörkin og þurrkaðist þannig út af Alþingi. Flokkurinn fékk nú 3 þingmenn, alla utan af landi en engan á höfuðborgarsvæðinu. Útkoma Framsóknar núna var hin sama og hjá Samfylkingu árið 2013. Flokkurinn missti 11 þingmenn og fór niður í 8. Svo á eftir að koma á daginn hvort örlög Framsóknar verða hin sömu og Samfylkingar í næstu kosningum, það er að halda áfram að minnka eða hvort þeim tekst að snúa dæminu við.
Þegar leitað er skýringa á hruni Samfylkingarinnar á svo skömmum tíma, staldra margir við átök og undirmál. Náttfari viðraði skoðanir sínar á flokknum í grein hér á vefnum þann 14. október sl. Meginniðurstaðan var sú að Jóhanna Sigurðardóttir hafi eyðilagt Samfylkinguna. Náttfari spáði ekki vel fyrir flokknum í kosningunum. Það hefur nú komið á daginn. Sjá meðfylgjandi grein:
http://www.hringbraut.is/frettir/category/15/johanna-eydilagdi-samfylkinguna
Samfylkingin var stofnuð um síðsutu aldamót úr Alþýðuflokki, Kvennalista, Bandalagi Jafnaðarmanna og Alþýðubandalagi að hluta til. Rætur sumra þessara flokka eru býsna djúpar. Þannig er Alþýðuflokkurinn stofnaður fyrir 100 árum. Mörgum Krötum svíður sárt hvernig komið er fyrir þessu jafnaðarmannaframboði. Þeir geyma gamla flokkinn ennþá og gætu átt eftir að ýta honum á flot að nýju til að bjarga um borð ýmsum félögum sem nú eru viltir, hraktir og veglausir.
Náttfari hefur aldrei stutt Samfylkinguna og telur því að meira mark sé takandi á innanbúðarfólki en honum sjálfum. Margir flokksmenn hafa tjáð sig um örlög flokksins eftir kosningar. Enginn þó með eins afgerandi hætti og Karl Th. Birgirsson sem þekkir vel til innan flokksins eftir áralangt starf á þeim vettvangi.
Hann birti grein á Herðubreið.is þar sem ekki var skafið utan af hlutunum. Fyrirsögnin var einfaldlega
Gott á pakkið. Sjá meðfylgjandi:
http://herdubreid.is/gott-a-pakkid/
Náttfari telur að dagar Samfylkingarinnar séu brátt taldir. Flokkurinn gæti beðið um skjól hjá Bjartri framtíð enda ekki mikill munur á stefnu og hugsjónum. Þá er hugsanlegt að Guðmundur Árni Stefánsson, formaður Alþýðuflokksins, ræsi flokkinn til nýrra verka á hinum pólitíska vettvangi. Samfylkingin er búin sem slík en gæti birst okkar undir öðru nafni á nýju heimilisfangi og með nýju fólki í forystu.
Hugsjón jafnaðarmanna er alls ekki slæm og hún á fullan rétt á sér þó ekki sé eftirspurn eftir henni í boði Samfylkingarinnar sem stendur.
Það koma nýjir tímar, nýtt fólk og nýjar umbúðir utan um jafnaðarstefnuna og þá gæti eftirspurnin átt eftir að aukast.