Meirihlutinn í borginni heldur samkvæmt stórri skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ sem Morgunblaðið birtir í dag. Samfylkingin er með 30,5% og fengi 8 menn kjörna. Sjálfstæðisflokkur fengi 7 fulltrúa og 27,3% sem er svipað fylgi og flokkurinn fékk í síðustu kosningum fyrir fjórum árum þegar hann galt afhroð í borginni. Núverandi meirihluti heldur velli með 12 borgarfulltrúa. Gæti verið með 13 ef Viðreisn yrði tekin með í meirihlutasamstarfið í stað Bjartrar framtíðar sem býður nú ekki fram.
Hér er um alvörukönnun að ræða þar sem 1.777 kjósendur svöruðu. Hún er því mikilvæg vísbending andstætt því sem Fréttablaðið birti fyrr í vikunni þar sem einungis 407 svöruðu. Könnun FB var Sjálfstæðisflokknum mun hagstæðari en kannanir stóru fyrirtækjanna sem ýmsum þykir dularfullt í ljósi mikilvægra tengsla aðalritstjóra blaðsins við annan mann á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Sitthvað merkilegt má lesa út úr þessari könnun sem Morgunblaðið birti í dag. Enn á ný kemur styrkur Dags B. Eggertssonar í ljós með því að Samfylkingin mælist með meira en 30% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn nær engu flugi. Hann er greinilega búinn að toppa og siglir nú lygnan sjó með svipað fylgi og í kosningunum fyrir 4 árum. Það hlýtur að valda miklum vonbrigðum og sýnir að Eyþór Arnalds virkar ekki gagnvart kjósendum. Flokkurinn hefur áður flutt til borgarinnar menn úr sveitarstjórnum úti á landi með lélegum árangri. Þannig kom Halldór Halldórsson frá Ísafirði og leiddi flokkinn síðast með afar slökum árangri. Nú kemur Eyþór Arnalds frá Selfossi og sama sagna virðist vera að endurtaka sig. Tími Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurborg virðist vera liðinn.
Fleira er athyglisvert í þessari könnun: VG er einungis með 9.7% fylgi en hafði um 20% fylgi í Reykjavík í Alþingiskosningum fyrir um hálfu ári. Helmingur þess stuðnings er horfinn á svo skömmum tíma. Það segir margt um vaxandi óvinsældir formanns flokksins, Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, sem er að mistakast flest sem hún tekur sér fyrir hendur um þessar mundir. Framsóknarflokkurinn fær engan borgarfulltrúa kjörinn og mælist einungis með 2.8% fylgi en hafði 10.7% fyrir fjórum árum. Algert hrun hjá þeim.
Þá koma þrír nýjir flokkar borgarfulltrúum inn; Viðreisn, Miðflokkur og Flokkur fólksins.
Ef þetta verður niðurstaða kosninganna eftir mánuð, verða ríkisstjórnarflokkarnir einungis með 9 borgarfulltrúa en stjórnarandstaðan með 14 fulltrúa.
Rtá.