Sameinast stjórnarandstöðuflokkarnir Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Miðflokkur?

Óvíst er hvað verður um stjórnarandstöðuflokkana þrjá nú þegar þeirra bíður dapurleg vist í valdalausri stjórnarandstöðu, jafnvel næstu fjögur til átta árin Viðbúið er að engin sérstök tilhlökkun ríki nú í herbúðum þeirra eftir úrslit kosninganna um síðustu mánaðarmót og myndun ríkisstjórnar þriggja stjórnarandstöðuflokka frá síðasta kjörtímabili. Miðflokkurinn þarf vissulega ekki að kvarta undan úrslitum kosninganna en flokkurinn fékk 12,1 prósent og átta þingmenn kjörna, hafði tvo á síðasta kjörtímabili og fjórfaldar því þingflokk sinn. Miðflokkurinn hefði vissulega verðskuldað og viljað komast í ríkisstjórn en varð ekki að þeirri ósk sinni. Mögulega hefði annað getað orðið uppi á teningnum en harðlínuafstaða gegn því að þjóðin fái að ákveða framtíð aðildarviðræðna við Evrópusambandið gerði endanlega út um möguleika flokksins á að komast í ríkisstjórn nú. Enginn veit þó fyrir fram hvernig ríkisstjórnarsamstarfi vegnar og leið Miðflokksins inn í ríkisstjórn gæti opnast síðar á kjörtímabilinu án þess að til kosninga þyrfti að koma. Evrópumálin gætu þó orðið hindrun á þeirri leið.

Niðurstaða kosninganna varð hins vegar ekkert annað en afhroð fyrir stjórnarflokka fráfarandi vinstri stjórnar Katrínar Jakobsdóttur og síðar Bjarna Benediktssonar. Vinstri græn fengu einungis 2,3 prósent greiddra atkvæða í kosningunum og fá því engan þingmann kjörinn. Framsókn tapaði miklu fylgi, fór úr 17,1 prósenti í 7,8 prósent og missti átta þingmenn. Flokkurinn endaði einungis með 5 þingmenn og það sem verra var að þrír af fjórum ráðherrum flokksins náðu ekki kjöri, einmitt helsta framtíðarfólk flokksins. Eftir það er vandséð hver getur tekið við formennsku af Sigurði Inga velji hann að axla ábyrgð á verstu kosningu flokksins í meira en hundrað ára sögu hans. Sigurður Ingi hlýtur að íhuga alvarlega afsögn sína en hver ætti þá að taka við formennsku í Framsókn? Við höfum engar góðar tillögur um það fram að færa. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins minnkar úr 17 þingmönnum í 14 þingmenn. Samtals hafa gömlu stjórnarþingflokkarnir nú einungis 19 fulltrúa á Alþingi Íslendinga en voru með 38 þingmenn á bak við sig í upphafi síðasta kjörtímabils.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist einungis 19,4 prósent í kosningunum, hið minnsta í sögunni. Bjarni Benediktsson hefur nú leitt flokkinn sex sinnum í kosningum. Í fimm af þeim kosningum hefur fylgi hans verið í neðstu röð frá upphafi. Frá því að Bjarni tók við formennsku árið 2009 hefur fylgið lækkað úr 36,6 prósent eða um nær helming. Ekki er lengra síðan en í kosningunum 1999 að Sjálfstæðisflokkurinn fékk yfir 40 prósent greiddra atkvæða. Því er ekki ofsögum sagt að fullyrða að flokkurinn hafi gengið í gegnum fylgishrun í formannstíð Bjarna.

Skiljanlegt er því að mikil óánægja kraumi í flokknum. Sjálfstæðisflokkurinn kann ekki að vera í stjórnarandstöðu, eins og sýnir sig glögglega í borgarstjórn Reykjavíkur. Flokkurinn hefur verið samfellt í ríkisstjórn frá vorinu 1991, að undanskildum árunum 2009 til 2013 en þá tóku flokksmenn út miklar þjáningar.

Ný ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur boðar verulegar stefnubreytingar í mikilvægum málum sem fyrrum stjórnarflokkar munu leggjast gegn. Á það ekki síst við breytta stefnu varðandi greiðslu leigugjalda fyrir afnot af eignum ríkisins eins og fiskimiðunum. Flokkarnir hafa gætt sérhagsmuna sægreifanna í þessum efnum en nú verður hugað að almannahagsmunum. Þá má ætla að allir þrír stjórnarandstöðuflokkarnir verði mótfallnir því að þjóðin fái að greiða atkvæði um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið eins og boðað er. Margt fleira mætti nefna sem mun ekki gleðja stjórnarandstöðuna.

Til viðbótar við vonbrigði, reiði, frekju og svekkelsi í Sjálfstæðisflokki og Framsókn er vert að hafa í huga að flokkarnir verða af miklum tekjum frá ríkinu vegna stórminnkaðs fylgis. Þetta kemur einkar illa við Framsóknarflokkinn sem hefur haft ríkisstyrk að fjárhæð 115 milljónir króna á ári er fer nú niður í 50 milljónir á ári vegna fylgishrunsins. Stjórnmálaflokkur í fjárþröng er ekki líklegur til stórræða. Miðflokkurinn margfaldar hins vegar tekjur sínar vegna kosningasigursins. Sjálfstæðisflokkurinn er eignalega sterkur, ekki síst eftir að meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur leyfði flokknum að þétta byggð á lóð flokksins við Valhöll sem væntanlega bætir eignastöðuna um heilan milljarð króna. En peningar geta ekki keypt allt eins og sýndi sig í forsetakosningunum á síðasta sumri. Þá rak Katrín Jakobsdóttir langíburðarmestu kosningabaráttuna, studd af Sjálfstæðisflokki, Framsókn og sægreifum en allt kom fyrir ekki og hún tapaði kosningunum með afgerandi hætti.

Hvað er til ráða fyrir laskaða og tætta stjórnarandstöðu? Fyrir liggur að margir flokksmenn bæði í Sjálfstæðisflokki og Framsókn vilja að formenn þeirra axli ábyrgð á fylgishruni og víki. Hjá hvorugum flokknum er þó sýnilegur sjálfsagður arftaki. Bent er á að stefna flokkanna þriggja er býsna lík. Þeir aðhyllast allir einangrunarhyggju og vilja ekki ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Þeir hafa ofurtrú á íslensku örkrónunni sem blaktir eins og strá í vindi, minnsta myntkerfi í heimi. Þeir vilja leyfa sægreifum að nýta fiskimiðin án þess að greiða ríkinu eðlilegt afgjald fyrir afnot af þessari dýrmætu eign þjóðarinnar. Þeir eru allir hlynntir ofurstyrkjum til landbúnaðar og enginn þeirra hefur miklar áhyggjur af misvægi atkvæða milli þéttbýlis og dreifbýlis. Hvers vegna sameinast þessir flokkar ekki? Fylgi þeirra í síðustu kosningum nam samtals 39,3 prósentum og þeir hlytu að halda alla vega 30 prósenta fylgi í kosningum, ef vel tekst til um sameiningu. Þingmannafjöldi stjórnarandstöðuflokkanna er nú 27 sem yrði langstærsti þingflokkurinn og fengi aukinn slagkraft þannig.

Ætla má að formenn Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins séu frekar á útleið en hitt eftir útreið síðustu ríkisstjórnar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er langyngstur formannana og sá eini sem stýrði flokki sínum til sigurs í kosningunum þann 30. nóvember sl. Hann hlyti því að vera sjálfsagður formaður hins sameinaða flokks en varaformaður og ritari kæmu þá frá hinum flokkunum. Vafalaust eru mörg ljón í vegi slíkrar sameiningar. En allt snýst um vilja og hugarfar. Eitt erfiðasta málið er trúlega það að mikil illindi urðu á sínum tíma í Framsóknarflokknum þegar kosið var á milli Sigurðar Inga og Sigmundar Davíðs um formennsku þar sem Sigurður Ingi hafði betur. Síðan eru liðin mörg ár og fullorðið fólk sættist gjarnan þegar rétti tíminn er kominn og nokkuð liðið frá átökum. Þá má ætla að margir sjálfstæðismenn verði ófúsir að leggja allar eignir flokksins inn í sameinaðan flokk. Þeir finna vafalaust ráð við því.

Hver veit nema sameining DBM – MIÐSJÁLFSTÆÐISFRAMSÓKN – verði ein af bombum næsta árs og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verði formaður hins sameinaða íhaldsmannaflokks?

Með þeim orðum óskar Dagfari lesendum sínum og landsmönnum öllum gleðilegs árs og þakkar liðna tíma.

- Ólafur Arnarson