Ragnheiður Elín Árnadóttir er komin langleiðina út í horn í ráðherraembætti sínu. Henni hafa verið mislagðar hendur í ýmsum málum en hvergi hefur henni gengið eins illa og með náttúrupassann sem hún er algerlega föst með og er búin að fá flesta upp á móti sér vegna málsins.
Tillögur Ragnheiðar eiga engan hljómgrunn í þinginu. Stjórnarandstaðan er öll á móti, flestir í Framsókn og mjög fáir í hennar eigin flokki styðja hugmyndir hennar. Hún er mjög einangruð í málinu. Þá hafa Samtök atvinnulífsins birt álit gegn henni og Samtök ferðaþjónustunnar eru algerlega mótfallin náttúrupassanum. Ráðherra sem getur ekki unnið með helstu hagsmunasamtökum í grein sinni á sér ekki framtíð.
Formaður Sjálfstæðisflokksins er búinn að átta sig á vandanum og vill skipta Ragnheiði Elínu út úr ríkisstjórninni. Vandinn er bara sá að flokkurinn hefur ekki konu til að taka við. Krafa um kynjahlutföll er rík en erfitt er að mæta þeirri kröfu þegar hæfar konur bjóðast ekki. Allir sjá hvernig fór fyrir Hönnu Birnu. Þegar hún hrökklaðist frá varð að sækja konu út fyrir þingflokkinn því formaðurinn vildi ekki fá einu hæfu konuna, Ragnheiði Ríkharðsdóttur, inn í ríkisstjórn vegna skoðana hennar á Evrópumálum.
Raddir verða nú æ háværari um að skipta Ragnheiði Elínu Árnadóttur út og taka Jón Gunnarsson inn í ríkisstjórn í hennar stað enda er hann formaður atvinnuveganefndar, vel heima í málefnum iðnaðar og ferðaþjónustu og mjög handgenginn Bjarna formanni í Evrópumálum.