Tónlistarkonan Salka Sól Eyfeld fékk heldur betur óvenjulegt viðfangsefni um síðustu helgi. Salka Sól lýsir þessu sjálf á Facebook-síðu sinni og segir:
„Fékk mögulega undarlegasta símtal sem ég hef fengið frá aðstoðarmanni ráðherra síðustu helgi. Ég var beðin um að prjóna íslenska lopapeysu fyrir forseta Úkraínu sem honum yrði færð sem gjöf frá utanríkisráðherra.“
Salka Sól brást vel við beiðninni enda ekki á hverjum degi sem svona verkefni kemur upp.
„Það er ekki hægt að segja nei við svona bón,“ segir hún en hún naut góðrar aðstoðar Sjafnar Kristjánsdóttur og Eygló Gísladóttur. Voru prjónaðar tvær lopapeysur á aðeins fimm dögum.
„Zelensky fékk svo peysurnar í gær en því miður náðist ekki að taka mynd af honum en vonandi sjáum við hann bregða fyrir í íslenskri lopapeysu en mest vonum við auðvitað að þessu stríði fari að ljúka.“