Sagðist hafa fundið kött lokaðan í tösku í ruslatunnu: Átti köttinn sjálfur og spann söguna af ótta við að missa íbúð

Hringbraut greindi frá því fyrr í vikunni að köttur hefði fundist lokaður ofan í tösku sem hafði verið sett ofan í ruslatunnu við Ásbrú í Reykjanesbæ. Vitnaði blaðamaður Hringbrautar í frásögn Villikatta í Reykjanesbæ og nágrennis en tilgangur Facebook-síðunnar er að miðla upplýsingum um villiketti á svæðinu og leita leiða til að útvega þeim heimili. Í frásögn sem birt var á Facebook-síðunni var sagt að íbúi hefði fundið köttinn þegar hann var að fara út með ruslið. Greindi íbúinn frá því að kötturinn hefði verið læstur ofan í tösku sem hefði verið hent í ruslatunnu og hefði heyrt köttinn mjálma. Í kjölfarið bjargað honum úr prísund sinni. Nú er komið í ljós að frásögnin er uppspuni frá rótum. Sá sem spann söguna var eigandi kattarins og óttaðist að missa húsnæði sitt þar sem dýrahald er bannað. Samkvæmt heimildum Hringbrautar greip eigandinn til þess ráðs í örvæntingu með hagsmuni sína og kattarins í huga.

Í frásögn Villikata í Reykjanesbæ og nágrennis sagði:

„Þegar hann kom að ruslafötunni heyrði hann mikil mjálm úr henni og ákvað að kíkja ofan í hana. Fann hann þar þá lokaða tösku þar sem kötturinn var í. Var farið með hana strax til Villikatta í Reykjanesbæ og nágrennis þar sem dýralæknir skoðaði köttinn.“

Í samtali við Hringbraut sagði Silja Ýr Markúsdóttir, sjálfboðaliði hjá samtökunum, að kötturinn hefði líklega ekki verið lengi ofan í ruslatunnunni. Kötturinn var skoðaður af dýralækni sem hann ekkert að henni.

„Hún var pínu skelkuð og hrædd eftir veru sína í tunnunni. Maður furðar sig bara á því hver myndi eiginlega gera svona við dýrið.“ 

Birt var mynd af kettinum og var eigandinn beðinn um að setja sig í samband við samtökin. Síðar um daginn kom í ljós að eigandinn hafði komið með köttinn og í örvæntingu sinni af ótta við að missa íbúðina eða dýrið sagt hafa fundið köttinn í tösku sem var ofan í ruslatunnu. Hann hafi aðeins haft velferð kattarins í huga og ekki vitað til hvaða bragðs ætti að taka. Tekið skal fram að kötturinn var við góða heilsu þegar komið var með hann til villikatta.

Samkvæmt heimildum Hringbrautar sá eigandinn mikið eftir þessari ákvörðun sinni.