Það verður kíkt inn í alla vega herbergi og skúmaskot í þættinum Heimilið í umsjá Sigmundar Ernis á Hringbraut í kvöld, en þátturinn fjallar um allar hliðarnar á rekstri og viðhaldi heimilisins.
Meðal gesta þáttarins í kvöld, sem hefst klukkan 20:00 er Sigurður H. Guðjónsson, formaður Húseigendafélagsins sem sinnt hefur hagsmunum húseigenda frá því snemma á þriðja áratug síðustu aldar, altso félagið sjálft, því Sigurður hefur \"aðeins\" verið í þessum geira í 40 ár. Hann er í sagnastuði í þætti kvöldsins og rifjar upp margar skringilegustu sögurnar af nágrannaerjum fólks í fjölbýli - og ber þar einna hæst söguna af kattahvarfinu mikla úti á Nesi þar sem ljúfir og ósköp indælir nýbúar voru búnir að koma sér fyrir í lítilli blokkaríbúð. Þar höfðu þeir ekki dvalið lengi að þeir voru byrjaðir að verka kjöt og fisk í sameiginlegu þvottahúsi fjölbýlishússins en um sama leyti tóku nágrannar eftir því að heldur var byrjað að fækka í kattahópnum sem vanalega var að sniglast i kringum blokkina.
Grunurinn um ástæður kattahvarfsins reyndist á rökum reistur, enda hætti köttunum í kring að fækka þegar fólkið var náðarsamlegast beðið um að hætta matargerðinni niðri í kjallara blokkarinnar, ella myndi Matvælaeftirlitið blanda sér í málið.
Þessar og enn fleiri glórulausar sögur í þætti kvöldsins en þar verður einnig fjallað um möguleika þess að reisa ódýrari íbúðir en þekkst hefur hér á landi, rætt um geymslu grænmetis og úrval grillvara skoðað með sérfræðingi, auk þess sem Gróðrastöðin Mörk verður heimsótt.
Heimilið er frumsýnt klukkan 20:00 á Hringbraut í kvöld.