Saga hetju - saga fordóma?

 

Í sjónvarpsþættinum KVIKAN sem var hleypt af stokkunum á Hringbraut í gærkvöld er sögð baráttusaga 59 ára gamallar konu úr Vestmannaeyjum. Hún heitir Fanney Björk Ásbjörnsdóttir og hefur verið í fréttum undanfarið vegna sögu sem vekur upp spurningar um réttlæti og jöfnuð innan íslenska heilbrigðiskerfisins.

Fanney hefur lifað við mjög skert lífsgæði síðan árið 1985. Tveimur árum áður smitaðist hún af lifrarbólgu C á spítala eftir að hún fæddi barn. Hinni björtu gleðistund fylgdi langur skuggi. Fanneyju var gefið sýkt blóð, á ábyrgð heilbrigðiskerfisins en ekki hennar. Eftir blóðgjöfina hefur veiran grasserað óslitið í blóði Fanneyjar. Hún neyddist til að hætta að vinna fyrir nokkrum árum.

Fanney hefur þó alltaf haldið baráttu sinni áfram og kemur þannig fram að virðingu vekur. Hjarta hennar hoppaði af gleði í vor þegar læknir hennar sagði frá nýju undralyfi sem fólki í nágrannalöndum stendur til boða. Það eru 95% líkur á að nýja undralyfið, Harvoni, myndi uppræta sjúkdóm hennar að fullu á þremur mánuðum. En Fanney fær ekki lyfin sín. Þótt hún ætti tíu milljónir króna í eigin vasa fyrir lyfjameðferðinni, því sá er u.þ.b. verðmiðinn á lækningunni, leikur vafi á að hún gæti sjálf sótt sér lyfið, sjálf sótt sér lífið. Með hverjum deginum sem líður aukast líkur á skorpulifur sem gæti dregið hana til dauða. Hún hefur ekki verið fullfrísk síðan árið 1985 – eða í heil 30 ár. Það eru engin lífsgæði í boði að óbreyttu, hún er alltaf með hita, alltaf slöpp en býr enn yfir mikilli mannlegri reisn þótt baráttan taki á.

Margt bendir til að saga Fanneyjar sé saga hetju. Á hinn bóginn verður ekki séð að mikill hetjuskapur sé fólginn í því hvernig íslenska ríkið hefur meðhöndlað mál Fanneyjar. Má ekki síst vísa í þeim efnum til síðasta misseris eða svo, þar sem hver höndin innan kerfisins hefur talað gegn annarri, ýmsir firrt sig ábyrgð. Einhvern veginn virðist sem mannúð og mennska hafi týnst í máli Fanneyjar – áleitnar spurningar vakna um ástæður þess og kalla á svör sem fyrst.

Fanney telur sjálf að fordómar séu veigamikil skýring á því að kerfið hafi ekki lagt sig fram sem skyldi um að bjarga hennar lífi. Fordómum fylgi mismunun. Hún ræðir þessa upplifun sína og rökstyður hana í KVIKUNNI sem var frumsýnd klukkan 21.30 á Hringbraut í gærkvöld.

Þeir sem vilja kynna sér sögu Fanneyjar Bjarkar nánar, þar sem birtist hörð gagnrýni frá læknum á íslenska heilbrigðiskerfið, geta lesið eftirfarandi fréttaskýringu sem Hringbraut birti í síðustu viku.

Það var áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dauðadóminn – eins og Fanney orðar það sjálf.