Saga af ótrúlegu góðverki

Eftirfarandi frásögn rifjaði ég upp með góðri konu. Leikfélag bæjarins var að sýna vinsælt barnaleikrit. Þetta var fyrir daga myndbanda og sjónvarps svo að sýning sem þessi var kærkomin tilbreyting í lífi barna bæjarins. Enda var aðsóknin mikil, löng biðröð barna beið eftir að fá keyptan miða. Í miðasölunni var kona að vinna við að selja miða. Hún var sjálf einstæð móðir þriggja barna svo að hún skildi vel þá eftirvæntingu sem að réði ríkjum í biðröðinni.

Inn í miðasöluna snaraðist formaður leikfélagsins. Hann sagði konunni að taka frá fjóra miða á besta stað, einn af betri borgurum bæjarins ætlaði að sjá sýninguna með börnum sínum. Konan neitaði, sagði að þeir sem ætluðu að fá miða ættu að fara í biðröðina. Formaðurinn tók þessu ekki vel, hann tók sjálfur fjóra miða og lagði þá til hliðar, sagðist vera sá sem réði í þessu húsi.

Áfram hélt miðasalan og miðarnir kláruðust. Fyrir framan miðasöluna stóðu fjögur börn, greinilega systkini. Það elsta hélt á krukku sem var full að smámynt. Konan sá að formaður leikfélagsins nálgaðist miðasöluna og með honum einn af þeim sem taldi sig til betri borgara bæjarins.

Konan tók fráteknu miðana og rétti þá til systkinanna og sagði þeim að drífa sig inn í salinn og skemmta sér vel.

Formaðurinn varð æfur þegar að hann komst að því að miðarnir voru farnir. Hann las konunni pistilinn. Konan brosti, hún horfði á eftir fjórum litlum börnum sem að leiddust upp stigann í átt að sal leikhússins, augu þeirra geisluðu af gleði og eftirvæntingu.

Konunni leið vel.

Hún heyrði ekki einu sinni hvað formaðurinn var að segja.