Sævar Daníel Kolandavelu er bundinn rúmi sínu alla daga og getur ekki setið uppréttur lengur en í nokkrar mínútur eftir slys við einfalda æfingu árið 2016. Hann segist vera fastur í heilbrigðiskerfi sem neiti að tala við sig og hefur íhugað að stytta sér aldur.
Þetta kemur fram í viðtali við Sævar sem birtist í Fréttablaðinu í dag.
„Þeir eru að reyna að troða mér í gegnum kerfið eins hratt og hægt er, án þess að gera nokkurn skapaðan hlut,“
Í dag eru að minnsta kosti sjö liðbönd í brjósthrygg og baki slitin og er Sævar ófær um að sinna daglegum verkum. Hann telur að stærsti hluti meiðslanna sé vegna afbrigðilegrar aukinnar hreyfigetu eftir slysið og að liðböndin séu sífellt að slitna og liðir að aflagast meira.
„Í grunninn neitar heilbrigðiskerfið að eiga samtal við mig. Þau vinna málið illa og hratt. Það eru til allt of litlir peningar og það eru of margir sjúklingar sem bíða eftir meðferð,“ segir Sævar.
„En það er komið fram við mig eins og ég tilheyri ekki samfélaginu. Eins og það þurfi ekki að virða reglur samfélagsins gagnvart mér.“
Sævar segir að hann hafi íhugað að stytta sér aldur. Hann sér ekki tilganginn í því að lifa í stöðugum sársauka.
„Ég hef engan áhuga á að svipta mig lífi. Það er ekki til vottur af þunglyndi í mér. Ég hef farið í geðmat uppi á spítala og þá kom í ljós að geðheilsan mín er í alla staði góð,“ segir Sævar.
„En þegar maður stendur frammi fyrir svona óréttlæti, þá er þetta nánast eins og að lóga hundi sem er allt of slasaður til að lifa. Ég lifi ekki af tíu ár í viðbót svona, það er enginn tilgangur í því að setja sig í gegnum stöðuga þjáningu alla daga,“ segir Sævar.
Að sögn Sævars hefur hann kynnt sér leiðir til að fá aðstoð við að deyja. Hann hefur hafið umsóknarferli um slíka meðferð.
„Þá þykir mér þægilegra að deyja skjótum og kvalalausum dauðdaga umkringdur vinum mínum og fagfólki, heldur en að ég sé að reyna að sarga mig á púls með rakvélablaði eða sturta í mig lyfjum,“ segir Sævar.