Hjónin Ólöf Ásta Salmannsdóttir og Ragnar Hauksson eiga og reka sælkeraverslunina Fiskkompaní á Akureyri sem hefur notið mikillar hylli sælkera á Norðurlandi og víðar. Ástríðan þeirra hjóna er fjölskyldan, góður matur, ferðalög, hreysti og að sjálfsögðu fótbolti, eins og þau segja sjálf. Ólöf og Ragnar hafa brallað margt saman á liðnum árum en þau kynntust gegnum fótboltann í forðum.
Hjónin Ragnar Hauksson og Ólöf Ásta Salmannsdóttir eru eigendur sælkeraverslunarinnar Fiskkompanísins á Akureyri sem hefur hlotið mikið lof fyrir hágæða vörur./Ljósmyndir aðsendar.
Fótboltinn laðaði þau að hvort öðru
„Fótboltinn átti hug okkar allan fyrstu 20 árin okkar saman. og við höfum verið svo lánsöm að fá að búa á nokkrum stöðum um landið okkar og spilað fótbolta. Á þeim tíma vorum við svo heppin að kynnast heilmikið af yndislegu fólki um land allt, ólíkri matarhefð og fengið innblástur víða sem við nýtum okkur hér í búðinni,“segir Ólöf dreymin á svip.
„En fiskurinn hefur ávallt átt hug okkar með fótboltanum sem varð svo til að við opnuðum okkar eigin verslun hér á Akureyri þar sem við vissum að hér vildum við búa eftir fótboltalífið og sýna fram á hvað við getum gert með fiskinn okkar góðan og framreidd hann á margvíslegan hátt.“
Ólöf og Ragnar eru bæði alin uppá á Siglufirði og þeim varð snemma ljóst á sínum fyrstu árum saman að góð og vönduð vinnubrögð, myndu ávallt skila sínu. „Sama við hvað ynnum, við vissum að myndi alltaf skila sínu og okkur yrðu allir vegir færir með góðri og mikilli vinnu.“
Forréttindi að vinna með lífsförunaut sínum og besta vin
Ólöf og Ragnar fagna tuttuguo og sjö árum saman, þremur börnum, einum hundi og svo afkvæmi sínu sælkeraversluninni Fiskkompaníinu. „Fiskkompaníið hefur átt allan okkar hug síðustu átta ár og verslunin hefur blómstrað og við með. Við vinnum mjög vel saman og skiptum með okkur verkum svo það verði ekki miklir árekstrar hjá okkur þar sem við erum saman 24 tíma sólarhringsins. Okkur finnst í raun mikil forréttindi að starfa með lífsförunaut okkar og besta vini.“
Fullkomnuðu sælkeraverslunina með því að bjóða uppá fisk og kjöt
Segðu okkur aðeins frá tilurð sælkeraverslunarinnar? „Það var nú þannig að þegar við fluttum hingað fyrir ellefu árum að við vorum ávallt með það í huga að opna fiskverslun, sem og við gerðum fyrir loks fyrir átta árum. Verslun hefur fest sig í sessi hér á Akureyri og hafa Akureyringar og aðrir nærsveitungar án efa verið okkur hliðhollir sem og aðrir kúnnar sem koma víðsvegar að. Fyrir svona liðlega sex árum kom smá pressa á okkur að við skildum nú bæta við okkur kjöti til að fullkomna sælkeraversluna, við gerðum það og sjáum við ekki eftir því. Kjötið er fullkomin búbót við fiskinn, meðlætið og aðrar sælkeravörur sem fást hjá okkur.“ Helstu áherslur sælkeraverslunarinar eru ferskur fiskur, íslenskt hágæða kjöt úr héraði, gott úrval af sælkeravörum og leggja hjónin mikla áherslu á að hafa snyrtilega og falleg búð sem allir vilja heimsækja. „Við viljum laða fólk að og okkar helsta aðalsmerki eru gæði og ferskleiki, það er okkar hjartans mál að bjóða aðeins uppá það besta og taka vel á móti viðskiptavinum.“
Kræsingar beint frá býli
„Við verslum við fimmtíu heildsölubirgja stóra sem smáa en gaman að segja frá því að af þeim eru tuttugu og fimm íslenskir birgjar sem við fáum vörur frá beint frá býli og úr vottuðum eldhúsum alls staðar að frá landinu okkar fagra. Sælkeravörurnar okkar eru mjög fjölbreyttar sem við bjóðum uppá, allt frá freyðidrykkjum, sósur, ostum, salami, pestó, sinnep, sælgæti og svo miklu miklu meira.“ Er eitthvað sem er vinsælla en annað? „Laxinn, fiskibollurnar, plokkfiskurinn, nautalundirnar, lambasælkerabitarnir, bankabyggið og salatið okkar, svo eitthvað sé nefnt.“ Hjónin láta sér ekki nægja að vera með sælkeraverslunin heldur eru þau einnig með heildverslun með fisk fyrir stóra sem smáa veitingastaði, hótel, stofnanir og fleiri fyrirtæki á Akureyri og nágrenni.
Ferskur og nýveiddur fiskur er lostæti og nýtur mikillar vinsælda./Ljósmyndir aðsendar.
Fiskkompaníið blómstrar á Akureyri
Aðspurð segir Ólöf að það sé hrein dásemd að reka verslun að þessu tagi á Akureyri. „Það er frábært að vera með verslunina okkar hér á Akureyri. Við fáum oft að heyra það hér í búðinni sem og út í bæ hvað það vantaði sárlega svona verslun, eins og ég hef oft áður sagt þá eru Akureyringar sérstaklega og aðrir hér úr nálægðum byggðum sem hafa verið okkur tryggir og góðir kúnnar. Vegna þeirra fáum við að vaxa og dafna sem eitt af kennileitum Akureyrar áfram í framtíðinni vonandi og fyrir það erum við þakklát.“
Sælkeraborðið er aðlaðandi og gleður bæði auga og munn.
Hver rétturinn öðrum girnilegri og kitlar bragðlaukana.