Sumarið er tíminn fyrir sælkerasmárétti sem trylla bragðlaukana og tekur örskamma stund að framreiða. Í þættinum Matur og heimili voru töfraðir fram tveir smáréttir á augabragði.
Edamame baunir eru einstaklega ljúffengar einar og sér en líka sem meðlæti með ýmsum réttum, sérstaklega suður-amerískum og asískum mat. Edamame baunirnar slá alltaf í gegn hjá matargestum. Þær er einnig hægt að bera fram sem forrétt og á smáréttahlaðborð. Kosturinn við edamame baunirnar er að þær eru bæði hollar og ljúffengar, stútfullar af próteini og henta mörgum, meðal annars þeim sem eru vegan og á ketófæði.
Risarækjurnar slá líka ávallt í gegn og hægt er að gera svo margt með þeim. Réttinn sem framreiddur var í þættinum er hægt að bera fram með ýmsum hætti. Hægt er að raða risarækjunum niður á nokkra diska og bjóða upp á léttan forrétt. Hægt er að útbúa risarækjusalat, en þá er mikilvægt að vera með sítrusávexti eins og límónur eða sítrónur. Risarækjur steiktar með hvítlauk og chili eru sælkeramatur og á vel við yfir sumartímann.
Bæði edamame baunirnar og risarækjurnar er hægt að kaupa frosnar í pokum, til að mynda í Bónus og því er kærkomið að eiga ávallt poka í frystinum sem hægt er að grípa í þegar galdra þarf fram sælkerarétti á augabragði.
Edamame baunir með chili og hvítlauk
1 poki frosnar edamame baunir(fást í Bónus)
2 litlir hvítlaukar (riflausir) saxaðir
2 stk. ferskur, rauður chilipipar, gróft saxaður
1 tsk. svartur pipar úr kvörn
1-2 tsk. chili kryddflögur
grófar Himalaya saltflögur eftir smekk
ólífuolía til steikingar
Byrjið á því að setja vatn í pott og sjóða. Þegar suðan er komin upp, hellið edamame baununum í vatnið og stráið örlitlu af Himalaya saltflögum yfir og látið sjóða í um það bil 3 mínútur. Hellið vatninu af baununum í gegnum sigti. Hitið pönnu með ólífuolíu í rúmlega miðlungs hita. Þegar ólífuolían er orðin vel heit, setjið þá saxaða hvítlaukinn og chili piparinn út í olíuna og steikið þar til hvítlaukurinn og chili piparinn eru orðnir mjúkir. Bætið þá baununum við og leyfið þeim að malla aðeins saman við. Kryddið í lokin með chili kryddflögunum, svörtum pipar og grófum Himalaya saltflögum. Berið fram á fallegan og aðlaðandi hátt. Það er bæði mjög gott og fallegt að strá grófum saltflögum yfir þegar edamame baunirnar eru bornar fram.
Æðislega góðar risarækjur í asískum fusion stíl
500 g risarækjur, óeldaðar, fást í Bónus
2-3 litlir hvítlaukar, fínt saxaðir
2 stk. rauður ferskur chilipipar, gróft saxaður
4 msk. ólífuolía
2 msk. maukað chili (fæst í krukku í Bónus)
Afþíðið rækjurnar og þerrið vel á pappír eftir að þær hafa þiðnað. Setjið rækjurnar í skál með hvítlauknum, chili, olíunni og chili-maukinu. Marínerið í 10-15 mínútur. Má marínera lengur. Steikið á rjúkandi heitri pönnu í 2-3 mínútur á hvorri hlið. Það er líka hægt að þræða rækjurnar upp á stálgrillpinna eða trégrillpinna og grilla á funheitu grilli í 2-3 mínútur á hvorri hlið.
Risarækjurnar eru gjarnan bornar fram með því að setja klettasalat í grunna skál eða veglegan bakka, síðan risarækjurnar yfir þegar þær eru tilbúnar og skreytt með límónubátum og jafnvel ætiblómum. Gott að setja smá límónusafa yfir rækjurnar. Það má skreyta að vild með því sem ykkur þykir passa vel með rækjunum. Einnig er líka ljúft að snæða rækjurnar beint af pönnu eða grilli og njóta þeirra án þess að hafa salat með.
*Allt hráefnið fæst í Bónus